Lokaverkefni – málstofur á þriðjudag og fimmtudag

Lilja Ólafsdóttir Fréttir

Hluti af náminu í Menntaskóla Borgarfjarðar felst í því að undir námslok vinna nemendur svokölluð lokaverkefni. Lokaverkefni er einstaklingsverkefni þar sem ríkar kröfur eru gerðar um sjálfstæð og vönduð vinnubrögð. Lokaverkefnin veita nemendum tækifæri til að dýpka skilning sinn á afmörkuðu sviði og gegna mikilvægu hlutverki við að þjálfa þá í að beita viðurkenndum aðferðum við meðferð heimilda, rannsókn eða lausn viðfangsefna og undirbúa þá enn frekar undir háskólanám.

Nú í vikunni kynna nemendur í LOKA3LH04 viðfangsefni sín á málstofum sem haldnar verða þriðjudaginn 28. febrúar og fimmtudaginn 2. mars. Málstofurnar verða í stofu 100 og hefjast klukkan 9:00 á þriðjudag og kl. 11:20 á fimmtudag. Öllum er frjálst að koma og fylgjast með kynningum á verkefnum og umræðum um þau.