Dimmission í MB

Nemendur sem útskrifast í vor dimmittera í dag. Krakkarnir fóru um bæinn og vöktu kennara með söng og glensi í morgun og borðuðu svo morgunverð með kennurum og starfsfólki í skólanum. Síðan var haldið út í vorið og litið við á ýmsum stöðum í bænum. Klukkan 11:00 hefst svo skemmtidagskrá nemenda í hátíðarsal skólans og eru allir velkomnir.

Útskrift verður laugardaginn 27.maí og hefst kl. 14:00.

Útskriftarnemar heimsækja Bifröst

Útskriftaremendur MB fengu boð frá Háskólanum á Bifröst um að koma í heimsókn og fylgjast með misserisverkefnavörnum nemenda á Bifröst í dag. Verkefnið sem þeir fylgdust með bar heitið “Wow air – velgengni og markaðssetning”, það var bæði áhugavert og skemmtilegt viðfangsefni sem á vel við í dag þar sem ferðaþjónusta er í miklum uppgangi. Nemendum var boðið uppá hádegismat og kynningu á skólanum að lokum. Helga Karlsdóttir viðskiptagreinakennari og Kristján G. Arngrímsson félagsgreinakennari fóru með hópnum.

Vordagur nemenda í Menntaskóla Borgarfjarðar 2017

Í dag héldu nemendur MB vordaginn sinn sem er árlegur viðburður í lok hvers skólaárs. Nemendur gerðu sér glaðan dag með því að fara í skemmtilegan stigaleik/ratleik þar sem þeir þurftu að bregða á hin ýmsu ráð til að ná stigum, svo var farið í glæsilegan sápubolta í Skallagrímsgarði þar sem nemendur öttu kappi með mismunandi árangri. Að lokum voru grillaðar pylsur ofan í liðið sem virtist vera mjög kærkomið eftir hamagang dagsins. Það var ekki annað að sjá en að nemendur skemmtu sér konunglega.