Leikhópur MB á uppskeruhátíð á Hólmavík

Menntaskóli Borgarfjarðar tekur þátt í verkefninu Þjóðleikur í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Þetta er verkefni sem hefur verið í gangi í tíu ár með það að markmiði að tengja þjóðleikhúsið á lifandi hátt við ungt fólk á landsbyggðinni og að efla þannig bæði áhuga þess og þekkingu á listforminu. Annað hvert ár eru þrjú til fjögur þekkt íslensk leikskáld fengin til að skrifa krefjandi og spennandi leikrit fyrir ungt fólk. Geir Konráð Theodórsson tók að sér að vera leiðbeinandi leikhópsins Sv1 við MB en leikhópurinn tók sér verkið „Eftir lífið“ fyrir hendur, eftir Sigtrygg Magnason. Uppskeruhátíð var haldin á Hólmavík dagana 30. apríl og 1. maí síðastliðinn, fyrir vestfirði og vesturland. Þangað mættu þeir Geir Konráð og Guðmundur Friðrik sem fulltrúar Menntaskóla Borgarfjarðar. Geir og Guðmundur fluttu brot úr sýningu MB á uppskeruhátíðinni og fengu að sjá aðra leikhópa sýna sín verk. Fjölbrautarskóli Snæfellinga var til dæmis með sama verk og MB en uppsetningin var mjög ólík. Ari Matthíasson leikhússtjóri Þjóðleikhússins og Björn Ingi Hilmarsson verkefnastjóri Þjóðleiks ásamt fleiri gestum frá Þjóðleikhúsinu komu á hátíðina til að sjá verkin. Allt gekk vel og mikil gleði einkenndi hópinn sem fór í skrúðgöngu í tilefni 1. maí þar sem yfirskriftin var „Lífið er leikhús“. Við óskum Þjóðleik og leikhópi MB innilega til hamingju með þetta góða samstarf.

 

Skóladagur í Borgarbyggð

Skóladagur Borgarbyggðar var haldinn á laugardaginn og þótti takast einmuna vel. Þar komu saman öll skólastig í Borgarbyggð en sveitarfélagið hefur sterka sérstöðu hvað varðar skóla í sínu samfélagi allt frá leiksskólum og upp í háskóla. Tilgangur dagsins var að gera eitthvað skemmtilegt og gagnlegt saman og að stimpla vel inn þýðingu skólanna í samfélaginu, kynna skólastarfið og skapa jákvæðni í garð skólanna. Það var markmið skipuleggjenda að blanda saman skemmtun, fróðleik, boðskap, umræðum og leikjum ásamt því að virkja frumkvæði og sköpunargleði. Gestir og gangandi ásamt þátttakendum voru ánægðir með daginn og nokkuð ljóst að öflugt skólastarf er í Borgarbyggð á öllum skólastigum. Fleiri myndir á facebook síðu Menntaskóla Borgarfjarðar.

 

Menntaskóli Borgarfjarðar í Laugardalshöll

MB var með sýningarbás á framhaldsskólakynningum í Laugardalshöll fimmtudaginn og föstudaginn 14. og 15. mars. Nemendur úr MB kynntu skólann en gestir í Laugardalshöll sýndu MB mikinn áhuga. Viðburðurinn ber heitið Mín framtíð 2019 og er Íslandsmót iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynningar. Þessi viðburður er haldinn annað hvert ár en þetta er í annað sinn sem MB tekur þátt.

Forseti Íslands heimsótti bás MB, gaf sér góðan tíma til að ræða við Lindu Rós og Örnu Hrönn, sem voru að kynna MB á þeim tíma og sýndi þeim mikinn áhuga á hvert þær stefndu í framtíðinni.