Home » Eineltisáætlun

Eineltisáætlun

Stefna skólans

Einelti er atferli sem ekki er liðið innan Menntaskóla Borgarfjarðar. Einelti getur komið upp hvar sem er í samfélaginu og ber að sporna við því með fyrirbyggjandi aðgerðum og bregðast við því þegar það kemur upp. Allir, bæði starfsfólk og nemendur skólans, hafa hlutverki að gegna til að fyrirbyggja einelti í skólanum og er áhersla lögð á gagnkvæma virðingu í samskiptum. Taka ber allar tilkynningar um einelti alvarlega og bregðast skal skjótt við.

Skilgreining

Einelti er endurtekin athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.  Ójafnvægi er milli geranda og þolanda sem upplifir sig vanmáttugan. Einelti getur verið líkamlegt og/eða andlegt og getur jafnt birst í gegnum bein samskipti og í gegnum netmiðla s.s. Facebook, Twitter og Snapchat.

Birtingarmyndir eineltis (ekki tæmandi listi):

 • Illgjörn stríðni, endurteknar uppnefningar eða baktal
 • Útilokun t.d. frá hópavinnu
 • Hótanir og líkamlegt ofbeldi’
 • Hæðst að öðrum t.d. vegna útlits, menningar, trúar, fötlunar eða heilsuleysis
 • Myndir eða myndbönd af einstaklingi send með smáforritum og/eða á samskiptasíðum á Netinu gegn vilja han

 

Aðgerðaráætlun skólans

Eineltisáætlun skólans skal kynnt nemendum og starfsfólki árlega. Við skólann starfar eineltisteymi sem í sitja, skólameistari, aðstoðarskólameistari og náms- og starfsráðgjafi. Verði nemandi fyrir einelti skal hann tilkynna það til umsjónarkennara,  skólastjórnenda, náms- og starfsráðgjafa eða annars starfsfólks á þar til gerðu eyðublaði.

Ferill eineltismála

Nemendur

Í framhaldi af tilkynningu um einelti fer eftirfarandi ferli í gang:

 • Málið rannsakað og skal hlusta á sjónamið allra aðila og gæta trúnaðar og tillitssemi. Upplýsa hlutaðeigandi aðila um gang mála.
 • Umsjónarkennari, sé hann til staðar, upplýstur.
 • Rætt við þá aðila sem hlut eiga að máli, ásamt forráðamönnum sé nemandinn undir 18 ára aldri.
 • Tekin eru viðtöl við aðila og reynt að skapa sátt.
 • Ekki er aðhafst í málinu nema sá sem verður fyrir einelti (og forráðamenn eftir því sem við á) sé samþykkur. Sé hins vegar um að ræða brot á landslögum verður máli vísað til lögreglu.
 • Ef ekki tekst að skapa sátt fer málið til skólameistara sem tekur ákvörðun um beitingu viðurlaga eða leitar annarra leiða til lausnar.
 • Gerendur eineltis eru brotlegir við reglur skólans og því getur skólameistari vikið þeim tímabundið eða varanlega frá skólavist.
 • Þegar könnun máls er lokið eru niðurstöður kynntar þolanda og geranda.
 • Stjórn Nemendafélags Menntaskóla Borgarfjarðar er skylt að upplýsa um og starfa með skólastjórnendum, umsjónarkennurum og námsráðgjafa í því skyni að uppræta einelti. Í því getur m.a. falist að útiloka gerendur eineltis frá viðburðum á vegum félagsins.
 • Náms- og starfsráðgjafi veitir nemendum viðtöl þeim til stuðnings að ferli loknu og metur þörfina á frekari úrræðum.

Starfsfólk

Ef upp kemur grunur um að starfsmaður sé lagður í einelti skal tilkynna það til skólastjórnenda og/eða trúnaðarmanns eða öryggistrúnaðarmanns. Einnig er hægt að leita til Vinnueftirlits ríkisins sem hefur leiðbeinandi hlutverk og eftirlitsskyldu í eineltismálum. Um viðurlög gilda lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað nr. 1000/2004.
Í framhaldi af tilkynningu um grun um einelti fer eftirfarandi ferli í gang:

 • Skólastjórnendur og/eða trúnaðarmaður skipuleggja rannsókn málsins. Telji starfsmaður sig verða fyrir einelti af hálfu skólastjórnenda má leita beint til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
 • Málið rannsakað og skal hlusta á sjónarmið allra aðila og gæta trúnaðar og tillitssemi. Upplýsa hlutaðeigandi aðila um gang mála.
 • Ekki er aðhafst í málum nema þolendur séu því samþykkir. Sé hins vegar um að ræða brot á landslögum verður máli vísað til lögreglu.
 • Þegar könnun máls er lokið eru niðurstöður kynntar þolanda og geranda.
 • Eftirfylgni er beitt með einstaklingum eða hóp eftir því sem við á.

 

Eineltisáætlun samþykkt á starfsmannafundi 26. maí 2016
Áætlunin skal endurskoðuð á þriggja ára fresti.

Eyðublað