Home » Heilbrigðisritarabraut

Heilbrigðisritarabraut

Menntaskóli Borgarfjarðar, í samstarfi við Fjölbrautaskólann við Ármúla býður næsta haust (2018) upp á nám á heilbrigðisritarabraut.

Heilbrigðisritaranám er 120 feininga starfsnám með námslok á 2. hæfniþrepi. Námið tekur að jafnaði fimm annir (tvö og hálft ár með starfsnámi). Það skiptist í almennar greinar, heilbrigðisgreinar, sérgreinar brautar og vinnustaðanám. Tilgangur námsins er að búa nemendur undir ritarastörf á heilbrigðisstofnunum og hjá fyrirtækjum í heilbrigðisþjónustu. Þau störf eru fjölbreytt og hafa að mestu leyti þróast á vettvangi í takt við þarfir stofnana.

Skilyrði til innritunar í nám á heilbrigðisritarabraut er að nemendur hafi lokið skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla og náð tilskildum lágmarksárangri skv. ákvæðum reglugerðar um innritun nemenda í framhaldsskóla. Nemendur skulu hafa náð 18 ára aldri þegar þeir hefja vinnustaðanám.

Námið, sem er 120 framhaldsskólaeiningar (fein), skiptist í 37 fein. almennar greinar, 37 fein. almennar heilbrigðisgreinar, 26 fein. sérgreinar brautar og 20 fein. vinnustaðanám. Meðalnámstími er tvö og hálft ár, þ.e. fjórar annir í skóla auk tólf vikna vinnustaðanáms. 26% feininga er á fyrsta þrepi, 66% á öðru þrepi og 8% á þriðja þrepi. Skipulagt vinnustaðanám, undir leiðsögn starfandi heilbrigðisritara, tekur við að loknu bóknámi.

Vinnustaðanám á heilbrigðisstofnun eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu tekur við að loknu bóknámi í skóla. Það skiptist í 6 vikna skipulagt vinnustaðanám á heilsugæslu undir leiðsögn starfandi heilbrigðisritara og 6 vikna skipulagt vinnustaðanám á sjúkrahúsi undir leiðsögn starfandi heilbrigðisritara. Vinnustaðanámið fer fram á vinnustað sem viðkomandi skóli viðurkennir.

Skipulag samstarfs MB og FÁ er með þeim hætti að hluti námsins frem fram í MB en hluti námsins fer fram í fjarnámi frá FÁ. Nemandi, sem kýs að taka námið í gegnum MB, skráir sig í skólann með því að hafa samband við skólameistara, Guðrúnu Björgu Aðalsteinsdóttur, á netfangið gudrunbjorg@menntaborg.is Skoðað er hvort nemandi hafi lokið einhverju námi á framhaldsskólastigi sem hægt er að meta inn á brautina.

Uppsetningu brautar má sjá hér  heilb.ritari_FÁ&MB

Heilbrigðisritarabraut samkv. námskrá FÁ