Nemendur Menntaskóla Borgarfjarðar geta sótt um að búa á nemendagörðum. Hér er að finna upplýsingar um herbergi sem nemendum MB stendur til boða að leigja. Þeir sem vilja leigja þurfa að hafa samband við skrifstofu skólans í síma 433 7700.
Nemendur sem búa á nemendagörðum geta sótt um húsaleigubætur. Nemendur yngri en 18 ára sækja um hjá því sveitarfélagi sem þeir eiga lögheimili í. Upplýsingar um húsaleigubætur og umsóknareyðublöð fyrir nemendur með lögheimili í Borgarbyggð fást í Ráðhúsi Borgarbyggðar í Borgarnesi. Síminn er 433-7100. Nemendur 18 ára og eldri sækja um húsaleigubætur í gegnum Vinnumálastofnun en allar upplýsingar er að finna á www.husbot.is
Dvalarstyrkur frá Lánasjóði íslenskra námsmanna
Nemendur sem eiga lögheimili í meira en 30 km fjarlægð frá skóla eiga auk þess rétt á dvalarstyrk frá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN).
Nemendagarðar að Brákarbraut 8
Um er að ræða tvær íbúðir á jarðhæð við Brákarbraut 8. Í hvorri íbúð eru tvö góð svefnherbergi, annað stærra en hitt. Gert er ráð fyrir að tveir nemendur geti verið saman í herbergi. Íbúðirnar eru bjartar og rúmgóðar. Leiguverð hverju sinni er að finna í gjaldskrá Menntaskóla Borgarfjarðar. Í herbergjunum eru rúm, náttborð og fataskápar. Afnot af baðherbergi, eldhúsi og stofu eru sameiginleg. Nettenging er innifalin í verði. Leiga skal greidd fyrirfram.
Tryggingagjald á leigutíma
Tryggingagjald á leigutíma fyrir hvern einstakling er jafngildi eins mánaðar leigugjalds. Tryggingagjald er greitt við úthlutun í júní hvert ár. Með greiðslu tryggingagjalds staðfestir leigjandi umsókn.
Úthlutunarreglur/forgangur miðast við eftirfarandi:
- Nemendur eiga lögheimili í dreifbýli Borgarbyggðar.
- Nemendur undir 18 ára aldri.
- Námshlutfall nemanda á leigutíma. Nemandi í fullu námi gengur fyrir.
- Nemendur utan Borgarbyggðar.
Ef tveir eða fleiri umsækjendur uppfylla jöfn skilyrði skal dregið úr potti hver fær úthlutun. Miðað er að nemendur sem fá vistarpláss njóti þess í a.m.k. tvö skólaár. Þetta er þó háð því að þeir uppfylli allar reglur um umgengni á heimavist.
Reglur um nemendagarða Menntaskóla Borgarfjarðar
- Skólameistari ber ábyrgð á nemendagörðum skólans og setur reglur nemendagarða.
- Markmið þessara reglna er að tryggja nemendum hvíldar- og vinnufrið.
- Næði skal vera á nemendagörðum frá 23:30 – 06:30, bæði í herbergjum og í sameiginlegum vistarverum.
- Gestir þurfa að vera komnir út úr húsnæðinu kl. 23:00 nema á föstudags- og laugardagskvöldum en þá er gestum heimilt að dvelja til kl. 01:00.
- Íbúar og gestir skulu ávallt ganga hljóðlega um húsnæðið. Íbúar bera ábyrgð á sínum gestum. Allar þessar reglur gilda einnig fyrir gesti íbúa.
- Öll meðferð áfengis og annarra vímuefna í húsnæði og á lóð nemendagarða er stranglega bönnuð. Brot á þessu ákvæði varðar riftun leigusamnings og skal íbúi hafa tvo daga til að flytja út eftir riftun samningsins.
- Nemendur skulu halda herbergjum og sameiginlegum vistarverum hreinum og snyrtilegum og ganga vel um allt húsnæðið og lóð. Nánari reglur um þrif og umgengni fylgja leigusamningi.
- Íbúðir nemendagarða skulu vera læstar allan sólarhringinn, en hver íbúi fær sinn lykil að viðkomandi íbúð. Greiða skal tryggingagjald við móttöku lykils sem endurgreitt verður þegar lykli er skilað, svo fremi sem íbúðin sé í viðunandi ástandi. Skólameistari ákveður upphæð tryggingargjalds við upphaf hvers skólaárs.
- Íbúar, eða forráðamenn þeirra hafi þeir ekki náð 18 ára aldri, eru fjárhagslega ábyrgir fyrir skemmdum sem þeir eða gestir þeirra valda á húsnæði eða munum á nemendagörðum. Heimilt er að krefja íbúana í heild um greiðslu fyrir skemmdir á sameiginlegu rými, enda verði ekki upplýst hver hafi valdið þeim.
- Herbergi og sameiginlegar vistarverur eru teknar út í upphafi leigutíma og við lok hans. Ástand húsnæðis og búnaðar er þá skráð og staðfest af leigutaka og leigusala. Leigutaki skal skila húsnæðinu í sama ástandi og hann tók við því, á það við um ástand húsnæðis, búnaðar og þrif.
- Íbúar á nemendagörðum skulu láta umsjónarmann húsnæðis vita ef þeir þurfa að dvelja utan nemendagarða á tímunum kl. 24:00 til 6:30 virka daga og kl. 2:00 til 6.30 föstudags- og laugardagskvöld.
- Íbúar á nemendagörðum skulu af öryggisástæðum skrá sig á sérstakt eyðublað ef þeir fara í burtu um helgi eða yfir nótt og gefa þá upp bæði hvert þeir eru að fara og hvenær þeir komi til baka.
- Umsjónarmaður húsnæðis hefur eftirlit með að reglum þessum sé framfylgt.
- Brjóti nemendur af sér skal umsjónarmaður tilkynna brotið til skólameistara. Viðurlög við brotum á reglum þessum eru áminning skólameistara. Endurtekið brot varðar brottrekstri í viku. Við þriðja brot er nemanda vikið af nemendagörðum það sem eftir er af skólaárinu. Brot ósjálfráða íbúa á reglum þessum skal tilkynna til foreldra/forráðamanna hans.
- Sé brot svo alvarlegt að mati umsjónarmanns og skólameistara að það varði hag allra íbúa og jafnvel gerandans sjálfs, er heimilt að vísa viðkomandi strax af heimavist, þó að ekki sé um endurtekið brot að ræða og ekki hafi verið veitt skrifleg áminning.
Búsetuþjónustan við Skúlagötu / Brákarbraut tekur að sér reglubundið eftirlit á nemendagörðum. Í eftirlitinu felst stutt eftirlitsferð í íbúðirnar á tímabilinu 22:30 – 23:00 alla daga þann tíma sem skóli stendur yfir.
Auk þess tekur Búsetuþjónustan að sér að vera á verði þannig að sé um hávaða eða ólæti að ræða, á hvaða tíma sólahrings sem er, þá sé skólameistara eða þeim sem hann tilnefnir gert viðvart.
Skólameistari
Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir
s. 894-1076