Stefna MB

Staða og styrkur

Menntaskóli Borgarfjarðar er áfangaskóli sem býður upp á fjórar bóknámsbrautir til stúdents- prófs, opna braut, félagsfræðabraut, náttúrufræðibraut og íþróttafræðibraut. Innan náttúrufræðibrautar geta nemendur valið að taka búfræðisvið og innan íþróttafræðibrautar geta nemendur valið um félagsfræðasvið eða náttúrufræðisvið. Nám til stúdentsprófs er skipulagt sem þriggja ára nám. Nemendur geta einnig valið framhaldsskólabraut þar sem  áhersla er á undirbúning undir nám á stúdentsprófsbraut, annað nám eða eftir atvikum þátttöku í atvinnulífi. Við skólann er starfrækt starfsbraut fyrir nemendur sem hafa greiningu fagaðila og geta ekki nýtt sér annað  nám við skólann. Nám á starfsbraut tekur fjögur ár.

Menntaskóli Borgarfjarðar á í margvíslegu samstarfi við nærsamfélagið. Fjölbreytt samstarf er við skóla héraðsins og atvinnulífið. Menntaskóli Borgarfjarðar er í samstarfi við Fjölbrautaskóla Snæfellinga og er aðili að Fjarmenntaskólanun. Skólinn á einnig í samstarfi við erlenda skóla varðandi styrki til þróunarstarfs og gagnkvæmra námsferða.

Menntaskóli Borgarfjarðar hefur frá upphafi haft framsækni að leiðarljósi og farið ótroðnar slóðir í kennsluháttum og námsmati. Við skólann eru engin lokapróf, þess í stað er áhersla lögð á verkefnavinnu og smærri próf. Námsmat skólans er í formi leiðsagnarmats. Skólinn er lítill og einkennist af persónulegum samskiptum. Aðstaða til náms og félagsstarfs er mjög góð í skólanum.

1.    Hlutverk og megináherslur

Menntaskóli Borgarfjarðar starfar samkvæmt aðalnámskrá og lögum um framhaldsskóla og öðrum lögum og reglugerðum sem varða starfsemi framhaldsskóla. Í skólanum er leitast við að efla alhliða þroska allra nemenda og búa þá undir virka þátttöku í fjölbreyttu nútímasamfélagi, störf í atvinnulífi og áframhaldandi nám.

Menntaskóli Borgarfjarðar hefur að leiðarljósi grunnþætti menntunar: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.

Í skólanum er leitast við að mæta ólíkum áhugasviðum og hæfileikum nemenda, víkka sjóndeildarhring þeirra, styrkja gagnrýna og skapandi hugsun, leggja rækt við persónulegan þroska og siðgæðisvitund og efla mannskilning, tillitsemi og virðingu fyrir fólki og umhverfi.

Einkunnarorð MB eru; Sjálfstæði – Færni  – Framfarir og kristallast viðhorf vinnunnar í skólanum í þessum kjörorðum.

Sjálfstæði: Í Menntaskóla Borgarfjarðar er lögð áhersla á að efla sjálfstæði, frumkvæði og skapandi hugsun meðal nemenda. Áhersla er lögð á sjálfstraust og sjálfstæði í vinnubrögðum. Skólinn hvetur  nemendur til að setja sér sín eigin markmið með náminu.

Færni: Í Menntaskóla Borgarfjarðar er lögð áhersla á færni og kunnáttu nemenda á fjölbreyttum sviðum. Nemendur eru þjálfaðir í þekkingarleit. Áhersla er á að efla nemendur sem einstaklinga og námsmenn þannig að þeir verði færari um að takast á við verkefni við krefjandi aðstæður.

Framfarir: Í Menntaskóla Borgarfjarðar er lögð áhersla á að með auknu sjálfstæði nemenda og færni verði stuðlað að sem mestum framförum nemandans. Skólinn hvetur nemendur til góðrar ástundunar, vandaðra vinnubragða, virkni í námi og félagslífi.

Framtíðarsýn

Nám og gæði kennslu

 • Framtíðarsýn Menntaskóla Borgarfjarðar er að vera leiðandi skóli í þróunarstarfi sem leggur áherslu á framsækni og fjölbreytni í kennsluháttum og námsmati.
 • Skólinn vill búa nemendum fjölbreytt námsumhverfi með áherslu á verkefnamiðað nám.
 • Þá er það stefna skólans að styrkja enn frekar góð tengsl við nærsamfélagið og auka tækifæri nemenda í gegnum alþjóðlegt samstarf.
 • MB leggur áherslu á að styrkja og efla námsframboð til að koma til móts við þarfir og áhuga nemenda á upptökusvæði skólans.

Nemendur

 • Skólinn vill stuðla að ábyrgð nemenda á eigin námi og að fyrirkomulag náms stuðli að góðri ástundun.
 • Áhersla er á að skólabragur sé jákvæður og lýðræðislegur. Að samvinna einkenni lausn viðfangsefna. Að persónuleg samskipti, skapandi hugsun, jafnrétti, góð líðan og virðing fyrir einstaklingnum einkenni skólabraginn.
 • Áhersla er lögð á heilsusamlega umgjörð um skólastarfið og að andleg, líkamleg og félagsleg velferð nemenda sé höfð að leiðarljósi.
 • Stjórnendur vilja leggja áherslu á að fjölga nemendum með sem fjölbreyttustu námsframboði og gæðum í kennslu.

Stjórnun

 • Allur rekstur skólans, aðbúnaður, þjónusta og velferð nemenda og starfsmanna sé til fyrirmyndar.
 • Stjórnendur skólans vilja nýta sér þá samfélagsmiðla sem í boði eru við markaðssetningu skólans.

Markmið Menntaskóla Borgarfjarðar eru að:

Nám og gæði kennslu

 • skólinn leggi metnað sinn í að hafa ávallt vel menntað og metnaðarfullt starfsfólk sem gerir kröfur til sín og nemenda
 • efla starfsþróun kennara
 • veita kennurum svigrúm til sjálfstæðis og frumkvæðis í starfi
 • fylgjast vel með því sem hæst ber á sviði uppeldis- og kennslumála
 • nemendur fái ávallt gæða stoðþjónustu við sitt hæfi
 • skapa gott starfsumhverfi fyrir nemendur og starfsfólk
 • starfshættir mótist af umburðarlyndi og jafnrétti, virðingu, lýðræðislegu samstarfi og ábyrgð
 • að námið veiti bæði fræðilega og hagnýta þekkingu
 • auka tengsl við nærsamfélagið með áherslu á samvinnu og samstarf við skóla og fyrirtæki í héraðinu

Nemendur

 • nemendur hafi aðgang að öflugri stoðþjónustu
 • styðja við námshvöt nemenda, rækta námsgleði og vinnuanda
 • efla frumkvæði, sjálfstæði og ábyrgð nemenda
 • raddir nemenda séu virkur þáttur í starfi skólans
 • styðja vel við félagslíf nemenda
 • sérhver nemandi hafi tækifæri til að rækta sína hæfileika og ná góðum árangri
 • við skólann séu nemendagarðar

Stjórnun

 • fjármál og rekstur skólans einkennist af gagnsæi og jafnvægi
 • aukin áhersla verði lögð á að kynna námsframboð skólans
 • nota innra mat með markvissum hætti til umbóta í skólastarfi

Sérstaða

Menntaskóli Borgarfjarðar hefur leitast við að marka sér sérstöðu með eftirfarandi hætti:

 • að leggja áherslu á jákvæðan lífsstíl og andlegt heilbrigði með persónulegri þjónustu við nemendur
 • að skipulag náms sé fjölbreytt, einstaklingsbundið og sveigjanlegt
 • að áfangakeðjan STÍM sé hluti af öllum stúdentsbrautum
 • að stafræn hönnun og miðlun sé áhersluþáttur í flestum áföngum skólans
 • að bjóða uppá námsbrautina Náttúrufræðibraut – búfræðisvið í samstarfi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri
 • að vera í nánu samstarfi við fyrirtæki og stofnanir í nærumhverfi sínu
 • að vera í fararbroddi hvað varðar námsmat og endurgjöf til nemenda
 • að nemendur vinni lokaverkefni út frá áhugasviði og geti skilað vinnu sinni með fjölbreyttum hætti