Menntaskóli Borgarfjarðar í Laugardalshöll

MB var með sýningarbás á framhaldsskólakynningum í Laugardalshöll fimmtudaginn og föstudaginn 14. og 15. mars. Nemendur úr MB kynntu skólann en gestir í Laugardalshöll sýndu MB mikinn áhuga. Viðburðurinn ber heitið Mín framtíð 2019 og er Íslandsmót iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynningar. Þessi viðburður er haldinn annað hvert ár en þetta er í annað sinn sem MB tekur þátt.

Forseti Íslands heimsótti bás MB, gaf sér góðan tíma til að ræða við Lindu Rós og Örnu Hrönn, sem voru að kynna MB á þeim tíma og sýndi þeim mikinn áhuga á hvert þær stefndu í framtíðinni.

Útivistarferð nemenda MB

Föstudaginn 8. mars fóru 21 nemandi ásamt kennurunum Bjarna og Sössa í útivistarferð í Skálafell. Ferðin var liður í útivistaráfanga sem þeir félagar stýrðu fyrir hönd Menntaskóla Borgarfjarðar.

Upphafleg hugmynd var að skíða en þar sem við búum á Íslandi þar sem aldrei er hægt að treysta á veðrið var plan B til staðar frá upphafi skipulagningar. Það kom svo á daginn að ekki væri hægt að skíða og því var farið í gönguferðir, rennt sér á rassaþotum og umhverfið skoðað. Gist var eina nótt en á föstudagskvöldinu var kvöldvaka þar sem mikið var spilað á spil. Nemendur og kennarar eru sammála um að ferðin hafi jafnt verið fróðleg og skemmtileg og við gerum ráð fyrir að útivistaráfangi verði í boði á hverri önn við MB í framtíðinni.

 

Nemendur MB sóttu málþing kynjafræðinema

Um 16 nemendur MB fóru þann, 28. febrúar s.l. á málþing kynjafræðinema sem haldið var í Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Það var námsbraut í kynjafræði við Háskóla Íslands og kynjafræðikennarar í framhaldsskólum sem stóðu að málþinginu. Á þinginu fóru fram fimm erindi sem tengdust málefnum kynjafræðinnar. Nemendur fengu fræðslu um muninn á heilbrigðum- óheilbrigðum- og ofbeldissamböndum, birtingarmynd ofbeldis í hinsseginsamböndum, innsýn í sómalískt samfélag út frá sjónarhorni kvenna, upplifanir þolenda í kynferðisafbrotamálum ásamt fræðslu um kynlífsmenningu ungmenna. Ferðin gekk í alla staði vel og fengu nemendur góða fræðslu um þau málefni sem voru til umfjöllunar.