Skóladagur í Borgarbyggð 30. mars 2019

Menntaskóli Borgarfjarðar og Þekking

Í dag skrifuðu skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar og Árni Rúnar Karlsson viðskiptastjóri Þekkingar undir þjónustusamning. Í samningnum felst að Þekking mun sjá um allan daglegan rekstur tölvukerfis Menntaskóla Borgarfjarðar og vera skólanum til ráðgjafar varðandi tækniframfarir og notkun upplýsingatækni í kennslu og almennum störfum.

Þekking er þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni en hjá fyrirtækinu starfa um 70 starfsmenn á tveimur starfsstöðvum á landinu, Akureyri og Kópavogi. Þekking býður uppá alhliða rekstrarþjónustu, kerfisveitu, hýsingu, internetþjónustu og gagnaflutninga ásamt ýmsum sérlausnum, ráðgjöf og kennslu.

Þekking veitir einnig öfluga ráðgjöf varðandi upplýsingaöryggismál og hefur séð um verkefnastýringu og innleiðingu fjölda verkefna.

Við hjá Menntaskóla Borgarfjarðar erum spennt fyrir samstarfinu og höfum væntingar um framfarir í upplýsingatæknimálum.

Áskorendadagur í MB

Árlegur áskorendadagur milli nemenda og starfsfólks MB var haldinn í dag. Keppt var í sjö mismunandi greinum og var keppnin hnífjöfn og skemmtileg fram á síðustu stundu.

Fyrir hádegi var keppt í íþróttahúsinu í fótbolta, blaki, körfubolta og kíló en staðan var 2 – 2 um hádegið þegar hópurinn fór saman í MB og snæddi SS pylsur og fékk ís á eftir. Það má fá sér smá eftir svona átök. Eftir hádegið hélt keppnin svo áfram og var keppt í borðtennis sem kennarar unnu með glæsibrag, þá beerpong (með vatni) sem nemendur virtust hafa nokkuð forskot í og staðan fyrir síðustu keppnisgrein var því 3 – 3. Gettu betur var úrslitagreinin og er skemmst frá því að segja að nemendur voru greinilega í mikilli æfingu í Gettu betur og rústuðu starfsfólki með 34 stigum gegn 17 og vörðu því bikarinn. Til hamingju nemendur MB og takk fyrir góða og drengilega keppni!

Fleiri myndir er að finna á facebook síðu Menntaskóla Borgarfjarðar