Jöfnunarstyrkur – umsóknarfrestur til 15. febrúar

Sækir þú nám fjarri lögheimili og fjölskyldu? Kynntu þér reglur um námsstyrki og leiðbeiningar um skráningu á www.lin.is Eingöngu er hægt að sækja um jöfnunarstyrkinn með rafrænum skilríkjum á www.lin.is eða island.is. Umsóknarfrestur vegna vorannar 2020 er til 15. febrúar næstkomandi.

Áskorendadagurinn

Einbeiting

Mikil gleði og keppnisandi sveif yfir vötnum í dag. Haldinn var hinn árlegi áskorendadagur starfsfólks og nemenda. Starfsfólk og nemendur kepptu í sjö mismunandi greinum með það að markmiði að hampa farandbikarnum. Keppt er í knattspyrnu, körfubolta, badminton, boccia, waterpong og svo er endað á spurningkeppni. Starfsfólk og nemendur skiptu á milli sín að keppa í þessum greinum og var keppnin hörð. Rétt er að taka fram að í sumum greinum eru keppendur sem eru í landsliðshópum í sinni grein og því var getumunur nokkur milli liða í sumum tilfellum. Í röðum kennara eru vissulega bæði landsmeistarar og fyrrum landsliðsmenn, en það er nokkuð um liðið frá þeim afrekum.

Leikar enduðu þannig að nemendur unnu fjórar greinar meðan kennarar unnu þrjár og því unnu nemendur bikarinn fjóðra árið í röð. Dagur eins og þessi styrkir böndin milli nemenda og kennara og er nauðsynlegur þáttur í skólalífinu. Benda má á FB síðu MB en þar má finna fleiri myndir frá deginum.

Vorönn komin á fullt skrið

Skóli hófst á þriðjudag eftir gott jólafrí. Vond veður hafa aðeins sett strik í reikninginn þegar kemur að mætingu bæði kennara og nemenda en það hefur þó ekki mikil áhrif á námið því bæði nemendur og kennarar geta haldið sínu striki þökk sé nútímatækni.  Það er alltaf ys og þys þessa fyrstu daga á hverri önn og gaman að sjá líf færast í skólann. Félagsstarf nemenda er einnig komið á fullt og má nefna að MB keppir í Gettu betur núna í kvöld og svo er árlegur Áskorendadagur í næstu viku en þar etja kappi lið starfsfólks og nemenda í hinum ýmsu greinum og mörgum óhefðbundnum.

Menntaskóli Borgarfjarðar reynir eftir fremsta megni að bjóða upp á valáfanga fyrir nemendur sína til að glæða námið og hver geti stundað nám sem höfðar hvað mest til þeirra. Á vorönn 2020 eru kenndir þrír valáfangar, en það eru saga og kvikmyndir, forritun og tölvuleikjagerð, og útivist í snjó, auk þess geta nemendur valið sér áfanga af öðrum brautum skólans.

Viðburðir

janúar, 2020

Engir viðburðir

X