Málstofa – lokaverkefni

Útskriftarnemar við MB vinna nú að lokaverkefnum sínum við skólann. Viðfangsefni nemenda eru fjölbreytt má þar nefna; Fangelsi á Íslandi, betrun eða refsing, vísindabyltingin, Albert Einstein, José Mourinho og árangur hans, þróun tónlistar, Akira Kurosawa og áhrif hans á kvikmyndir og leiðir til að læra nýtt tungumál. Nemendur kynntu verkefni sín í morgun og svöruðu fyrirspurnum á málstofu. Kynningarnar voru góðar og augljóst að nemendur hafa lagt metnað í vinnuna. Sökum aðstæðna voru nemendur bæði á staðnum og á Teams.

Skólahald næstu viku

Skólahald næstu viku mun verða með aðeins breyttu sniði.

Áfram verða sömu áfangar kenndir í staðnámi.  Hinsvegar munu kennarar í þeim fögum einnig hafa „opið“ á TEAMS þannig að hægt er að fylgjast með kennslustundum yfir netið.

Ef nemendur óska eftir því að fá að sitja þessa  áfanga heima en ekki mæta á staðinn þarf að sækja um það sérstaklega á skrifstofu skólans (menntaborg@menntaborg.is)

Við mælum með því að nemendur nýti sér það að mæta í kennslustundir og munum því meta þessar beiðnir vandlega.

Annað sem breytist er að við munum kenna íþróttir fyrir þá nemendur sem eru í staðnámi. Þeir mæta því í íþróttir á sínum tíma í stundaskrá. ALLIR aðrir nemendur þurfa að skila inn hreyfingu til Íþróttakennara. Íþróttakennari hefur nú þegar sent skilaboð um það fyrirkomulag til ykkar.

Að öðru leyti mun kennsla næstu viku verða óbreytt, við minnum hinsvegar á að næsta föstudag 23ja október er námsmatsdagur í MB og því ekki kennsla. Eins er vetrarfrí mánudaginn 26. október.

Breyting á skóladagatali

Frá stofnun Menntaskóla Borgarfjarðar hefur skólinn verið með námsmat í formi leiðsagnarmats.  Í upphafi var þetta ein sérstaða  skólans, en mjög margir skólar hafa hinsvegar farið þessa leið síðustu ár. Markmiðið með  leiðsagnarmati er að gera nemendur meðvitaða um það sem þeir læra, hvernig þeir læra og hvað er ætlast til af þeim. Leiðsagnarmat byggist því á góðri umsögn frá kennurum, sem nemendur geta nýtt sér til að verða meðvitaðri um eigin námsframvindu.

Þrisvar á önn, með svokölluðum Vörðum, þá taka allir kennarar saman stöðuna á nemendum í sínu fagi og veita þeim formlega umsögn. Allir kennarar senda síðan umsagnirnar til viðkomandi umsjónarkennara. Umsjónarkennari heldur umsjónarfundi með nemendum þrisvar á önn og er skyldumæting í þá. Á umsjónarfundum á umsjónarkennari bæði einstaklingssamtal og/eða talar við sinn nemendahóp um mætingar, skólareglur og annað er viðkemur náminu sjá nánar hér: https://menntaborg.is/umsjon/

Síðastliðin ár hefur MB ekki haft ákveðna námsmatsdaga í tengslum við Vörður og skil leiðsagnarmats til nemenda. Með aukinni áherslu á skýr skilaboð til nemenda, góða umræðu á meðal kennara um rétt námsmat og enn faglegri vinnubrögð mun verða gerð breyting á því skipulagi. Frá og með Vörðu tvö á haustönn 2020  verða námsmatsdagar í MB við Vörðu eitt og tvö á hverri önn.  Í samræmi við þetta var því samþykkt breyting á skóladagatali MB á kennarafundi í MB.

Breytingarnar eru þegar sýnilegar á heimasíðu skólans, en í stuttu máli snúast þær um það að við færum Vörðudagana til og þeir dagar verða námsmatsdagar en ekki verður kennsla þessa daga. Þessir dagar eru föstudagurinn 23. október 2020 og svo 5. febrúar og 15. mars árið 2021. Viðtöl umsjónarkennara við nemendur fara svo fram á fimmtudeginum eftir námsmatsdag en þá er einnig hefðbundin kennsla.

Viðburðir

október, 2020

Engir viðburðir

X