Fjarnám við MB

Við í MB bendum á að enn er opið er fyrir umsóknir í fjarnám hjá MB

Fjarnám í MB er góður kostur fyrir þá sem ekki geta stundað nám á hefðbundinn hátt.  Í fjarnámi hafa nemendur aðgang að kennara sínum í gegnum tölvusamskipti og öllu efni er miðlað á vefumsjónarkerfi. Verkefni eru þannig sett inn á kennslukerfi (Moodle) skólans sem nemendur fá aðgang að og þangað sækja nemendur verkefnin og skila einnig. Í Menntaskóla Borgarfjarðar er mikil áhersla á verkefnamiðað nám þar sem nemendur þurfa að vera virkir og kennarar vinna sem leiðbeinendur eða verkstjórar. Fjarnemendur mæta aldrei í skólann en eru þó velkomnir í tíma ef það hentar.  Námsefni og kröfur í fjarnámi MB eru þær sömu og í dagskóla og því nota fjarnemendur sömu kennslubækur og gögn og aðrir nemendur skólans.

Við í MB erum afar stolt af því hvernig við höldum persónulegum tengslum við nemendur okkar í fjarnámi.

Allar frekari upplýsingar má sjá hér; https://menntaborg.is/dreifnam/

Frekari upplýsingar og skráning í námið fer fram með því að senda póst á menntaborg@menntaborg.is

Stúdent og garðyrkja

Um nokkurt skeið hefur Menntaskóli Borgarfjarðar boðið upp á sérstaka námsbraut, Náttúrufræðibraut með búfræðisviði. Námið fer þannig fram að nemendur taka tvö fyrstu árin (4 annir) í Menntaskóla Borgarfjarðar þar sem megináherslan er á kjarnagreinar til stúdentsprófs og valdar greinar á sviði raungreina. Seinni tvö árin hafa nemendur svo tekið  við búfræðibraut Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Nemendur brautskrást með stúdentspróf frá Menntaskóla Borgarfjarðar og búfræðipróf frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Nú hefur enn verið bætt við þetta samstarf og nemendur eiga þess kost að útskrifast með sama hætti sem stúdent og garðyrkjufræðingur frá LBHI.

Aukinn áhugi hefur verið á þessari námsleið hjá MB og því er þessi viðbót mjög spennandi kostur fyrir nemendur skólans.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Braga Þór Svavarsson skólameistara MB og Ragnheiði Þórarinsdóttur rektor LBHI handsala samkomulagið.

Sálfræðiþjónusta fyrir nemendur MB

Nú í vor framlengdu Menntaskóli Borgarfjarðar og Sjúkrasjóður Stéttarfélags Vesturlands samkomulag sem felur í sér stuðning við nemendur sem stunda nám í MB í formi endurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Samningurinn gildir út skólaárið 2021-2022 og er hugsaður sem forvörn gegn brottfalli nemenda úr skóla.

Gegn tilvísun frá Námsráðgjafa MB getur hver nemandi fengið endurgreiðslu eða styrk fyrir allt að fjórum sálfræðitímum á skólaári. Menntaskóli Borgarfjarðar greiðir fyrsta tímann en Sjúkrasjóður Stéttarfélags Vesturlands næstu þrjá tíma að hámarki.

Sjúkrasjóður Stéttarfélags Vesturlands hefur styrkt nemendur MB með þessum hætti síðustu ár og að þessu sinni var gerður samningur til tveggja ára.

Stjórnendur Menntaskóla Borgarfjarðar eru afar þakklátir aðilum Sjúkrasjóðs Stéttarfélags Vesturlands og vilja koma því á framfæri að styrkur sem þessi er ómetanlegur fyrir skólann og nemendur hans.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Braga Þór Svavarsson skólameistara MB og Signý Jóhannesdóttur formann Stéttarfélags Vesturlands handsala samninginn

Viðburðir

júli, 2020

Engir viðburðir

X