Leiðbeiningar um frágang verkefna og ritgerða

Stutt verkefni

Í síðuhaus komi fram nafn skóla, áfanga og nemanda/nemenda.
Síðan koma tvær auðar línur.
Heiti ritgerðar á miðju blaði.
Tvær  auðar línur að upphafi texta.
Blaðsíðutal fyrir miðju neðst á síðu.
Á eftir texta komi staður, dagsetning og undirskrift nemanda/nemenda ef verkefninu er skilað útprentuðu. Þetta á aldrei að vera á sérstöku blaði.

Lokaverkefni

Í lokaverkefnum er ekki notaður síðuhaus en á forsíðu kemur fram nafn skóla, heiti verkefnis, nafn höfundar, misseri og ár.

Letur

Times New Roman.
Eitt og hálft línubil.
Meginmál skal ritað með venjulegu 12 punkta letri og jafnað vinstra megin.
Heiti ritgerðar er skráð með 24 punkta feitu letri.
Millifyrirsagnir eru skráðar með 14 punkta feitu letri og jafnað vinstra megin.
Bókatitlar sem koma fyrir í texta skulu skáletraðir.

Hvernig skipt er milli lína?

Ósamsettum orðum á að skipta þannig að fyrri hluta fylgi svo margir samhljóðar sem hægt er að kveða að. Síðari hlutinn hefst þá alltaf á sérhljóða: trygg-ing, manns-ins, and-aði o.s.frv.
Samsettum orðum á að skipta um samskeytin: dag-blað, hafnar-bakki, dómsmála-ráðherra o.s.frv.
Aldrei skal flytja einn staf yfir í næstu línu.

 Strik

Afmarkar snögg skipti í hugsun, innskot eða viðauka á sama hátt og komma, semíkomma eða svigi - en greinilegar. Innskotið eða viðaukinn er oft til áherslu, táknar andstæðu eða eitthvað óvænt: Í Borgarnesi - og hvergi nema í Borgarnesi -  er að finna örnefni tengd Þorgerði brák.
Kemur í stað forsetningarinnar til milli talna: Dagana 20. - 30. mars.

Band

Skiptir heilu orði milli lína: Mennta-skólinn, bygg-ing.
Tengir samsett orð og örnefni:  Syðri-Gröf, Brennu-Njáll.
Kemur í stað fyrri eða síðari liðar í samsettu orði til að forðast endurtekningu: mennta- og menningarmálaráðuneyti, laga- og dómaskrár.

Gæsalappir afmarka:

Beina ræðu: „Áhrif verðhækkunarinnar eru gífurleg,“ sagði konan.
Beinar tilvitnanir sem eru styttri en fjórar línur.
Slettur eða óvenjulega notkun orða: Þetta er nú bara „basic knowledge“.
Heiti greina, kafla og annarra hluta í bókum og tímaritum.
Ef hluti setningar er afmarkaður með gæsalöppum koma þær á undan kommu eða punkti: Að hans sögn var málið „hreinasta svívirða og uppspuni frá rótum“.
Ef heil setning er afmörkuð með gæsalöppum koma þær á eftir kommu eða punkti sbr. „Áhrif verðhækkunarinnar eru gífurleg,“ sagði konan.
Íslenskar gæsalappir ( „  “ ) má finna undir „Insert – Special Character“.

Tölur og skammstafanir

Tölur frá einum til tíu eru táknaðar með bókstöfum en hærri tölur með tölustöfum.
Punktur afmarkar þúsundir og milljónir en komma tugabrot.
Í þrem tilvikum er ekki punktur á eftir skammstöfuðu orði, 1) á eftir skammstöfunum úr metrakerfinu, 2) þegar síðasti stafur orðs er hluti skammstöfunar, t.d. ca og e-r, 3) þegar skammstöfunin er rituð með hástöfum, t.d. BSRB, ASÍ o.s.frv.
Yfirleitt er ekki stafabil á milli skammstafaðra orða.
Skammstafanir skal nota sparlega í meginmáli en þær eru eðlilegar í neðanmálsgreinum.

Tilvitnanir

Þegar um örfáar setningar er að ræða er bein tilvitnun auðkennd innan gæsalappa.
Tilvitnunin er inndregin og án gæsalappa ef textinn er lengri en 40 - 50 orð. Jafnframt er letur og línubil smækkað.
Ef fellt er úr beinni tilvitnun er það sýnt með þremur punktum … Ef fellt er úr í lok setningar er fjórða punktinum bætt við.
Sé einhverju bætt inn í beina tilvitnun til skýringar skal það haft í hornklofa [  ].
Séu villur í heimild skal það merkt með (svo) í íslenskum texta.
Þegar orð í beinni tilvitnun eru skáletruð til áherslu á að geta þess í sviga hver hafi staðið fyrir skáletruninni (skáletrun hans (þ.e. höfundar), skáletrun mín).
Óbeinar tilvitnanir eru hvorki auðkenndar með gæsalöppum eða smærra letri en vísað er til heimildar í sviga í texta.

Tilvísanir

Vísað er til heimilda í sviga í texta.
Þar koma fram nafn höfundar, útgáfuár og blaðsíðutal ef um beina tilvitnun er að ræða.
Þegar höfundar eru margir skal nefna alla höfunda í fyrstu tilvísun en þegar næst er vísað til verksins nægir að geta fyrsta höfundar og bæta svo við o.fl.
Þegar höfundar eru sex eða fleiri eiga tilvísanir aðeins að geta fyrsta höfundar og síðan kemur skammstöfunin o.fl.
Þegar vísað er til tveggja eða fleiri heimilda í einu eiga þær að vera í stafrófsröð höfunda.

Heimildaskrá

Í heimildaskrá eru aðeins þær heimildir sem vísað er til í texta verkefnis.
Heimildum skal raðað í stafrófsröð, farið eftir eiginnöfnum íslenskra höfunda en eftirnöfnum erlendra. Sé höfundar ekki getið er farið eftir heiti heimildar.
Taki skráning heimildar fleiri en eina línu skulu þær sem umfram eru vera inndregnar.
Munnlegra og annarra óformlegra heimilda skal ekki getið í heimildaskrá heldur eingöngu í sviga í texta.
Skráning heimilda í Menntaskóla Borgarfjarðar tekur mið af APA staðli.

Mál og stíll

Í talmáli leyfist eitt og annað sem ekki þykir gott í ritmáli. Gætið þess að textinn verði ekki talmálslegur.
Notið eðlilegt og tilgerðarlaust málfar.
Gætið þess að málsgreinar verði ekki of langar.
Forðist slettur og slangur af öllu tagi.
Forðist „ruglandi“, það er órökrétta uppröðun efnisatriða.
Gætið þess að það séu ekki „skallar“ í textanum, það er að upplýsingar sem eru nauðsynlegar fyrir lesandann vanti.
Góð regla er að fá einhvern sem maður treystir til að lesa yfir verkefni áður en því er skilað.