Starfsmannastefna

Stefna Menntaskóla Borgarfjarðar í starfsmannamálum er að styrkja og laða að öflugt starfslið sem veitir nemendum allra bestu þjónustu sem völ er á, í samræmi við lög um framhaldsskóla og markmið skólans. Menntaskóli Borgarfjarðar leitast ævinlega við að ráða hæft starfsfólk til starfa við skólann og gerir kröfur um hæfiskilyrði starfsmanna í samræmi við gildandi lög um þau efni. Við ráðningar skólameistara, kennara eða náms- og starfsráðgjafa er farið eftir skilyrðum ákvæða gildandi laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldskóla nr. 87/2008 og lögum um náms- og starfsráðgjafa nr. 35 /2009. Gerð er krafa um að kennarar hafi kennsluréttindi á framhaldsskólastigi og fylgst er með að fagleg færni sé til staðar. Leitað er eftir samþykki umsækjenda um störf við skólann um að þeir heimili skólameistara að fá útskrift úr ferilsskrá viðkomandi hjá lögregluyfirvöldum til að ekki ráðist til starfa við skólann einstaklingar sem óæskilegt er að starfi að uppeldismálum.

Markmið starfsmannastefnu skólans eru:

  • Að tryggja starfsfólki góð starfsskilyrði.
  • Að stuðla að fræðslu og endurmenntun starfsfólks.
  • Að tryggja að gagnkvæmt traust og gott samstarf ríki innan stofnunarinnar.
  • Að stuðla að uppbyggilegri og faglegri umræðu um skólamál.
  • Að tryggja að starfsfólk sé vel upplýst um verkefni sín og skyldur.
  • Að stuðla að fjölskylduvænu starfsumhverfi.
  • Að tryggja að jafnréttissjónarmiða sé gætt á öllum sviðum.

Starfsmönnum gefst að minnsta kosti einu sinni á ári kostur á starfsmannasamtali við skólameistara um öll þau mál sem snerta starfsmanninn og vinnustaðinn.

Laun og önnur kjör starfsfólks taka mið af kjarasamningum stéttarfélaga viðkomandi starfsmanna og eru eigi lakari sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.