Samstarfsverkefni

Mobile Learning
Um er að ræða samstarfsverkefni MB, FSn og Símans.  Markmið verkefnisins er að kanna hvort skynsamlegt gæti verið að nýta farsíma í námi og kennslu á framhaldsskólastigi.  Sótt var um styrk í Sprotasjóð en hann fékkst ekki að sinni.  Samstarfið er fólgið í því að Síminn leggur til símtæki og ókeypis gagnaflutning en skólarnir prófa möguleika símanna í námi og kennslu og halda skýrslu um framgang mála.  Verkefnið hófst í byrjun árs 2010 og er ætlað að taka enda þegar samstarfsaðilar telja að nóg sé gert.

Náttúruauðlindir
Verkefnið er samskiptaverkefni Menntaskóla Borgarfjarðar og Calmare Internationale skola (CIF) í Kalmar í Svíþjóð.  Verkefnið er styrkt af Comeniusarverkefnasjóðnum.  Síðast liðið haust fóru tveir kennarar með 20 nemendur skólans til Kalmar og dvöldu þar í eina viku.  Þar unnu nemendur MB ásamt nemendum CIF að greiningu á náttúruauðlindum á svæðinu, nýtingu þeirra og markaðssetningu.  Í maí 2010 koma svo svipað margir nemendur frá Kalmar til MB, dvelja í viku og gera svipaðar kannanir á Íslandi.  Nemendur skólanna munu síðan gera samanburð á milli landanna.

Migration and cultural influences
Verkefnið er unnið með skólum frá Hollandi, Þýskalandi, Portúgal og Tyrklandi og hlaut Comeniusarstyrk til verkefnisins. Verkefnið snýst um að skoða fólksflutninga, fjölmenningu, pílagríma og verslun. Fundað var í Izmir í Tyrklandi í október 2010 og fyrstu nemendaheimsóknir verða í maí 2011, en þá koma alls 32 kennarar og nemendur í Borgarfjörð.

Notkun upplýsingatækni í námi og kennslu
Þegar skólinn hóf göngu sína var búið að ákveða að fara í tilraunaverkefni með Apple á Íslandi og Sparisjóði Mýrasýslu um að allir kennarar og nemendur væru með fartölvur og tengdust internetinu í skólanum.  Markmiðið með þessari tilraun var að sjá hvernig þessi tækni gæti nýst í námi og kennslu en einnig að hagræða en þá er átt við sparnað í byggingarkostnaði um sem nemur tölvuveri og kostnaði við borðtölvur í það rými.  Eftir á að meta þetta verkefni til fjár/sparnaðar en ljóst er að miklir möguleikar eru fólgnir í þessu varðandi kennslu en einnig margt sem ber að varast.

Notkun á gjaldfrjálsum hugbúnaði í námi og kennslu
Áður en skólinn hóf starfssemi var ákveðið að gera tilraun með að nota sem mest opinn og frjálsan hugbúnað í námi og kennslu.  Niðurstaðan varð sú að nota hugbúnaðinn NeoOffice eða Open Office í stað hefðbundins Microsoft Office hugbúnaðar og spara þannig verulegar fjárhæðir.  Nú rúmum þremur árum seinna er löngu orðið ljóst að engir hnökrar eru á því að nota þennan opna hugbúnað í námi og kennslu.  Þar sem skólinn notar eingöngu Apple tölvur er enginn kostnaður við stýrikerfi eða vírusvarnir í líkingu við það sem gerist í heimi PC-vélanna.  Skólinn mun áfram leitast við að auka notkun opins hugbúnaðar í skólastarfinu.

Nordplus samstarf
Verkefnið er samstarfsverkefni MB og Tønder handelsgymnasium. Tilgangurinn er að gefa nemendum tveggja skóla, sem tilheyra jaðarsvæðum, tækifæri til þess að hittast og kynnast aðstæðum hvers annars. Þau verða sjálf leiðsögumenn gesta í sínu heimalandi.  Verkefnið snýr að mörgum námsgreinum og munu nemendur eiga í netsamskiptum milli heimsókna.   Nordplus veitti styrki til gagnkvæmra undirbúningsheimsókna. Tveir kennarar frá Tønder komu til Íslands í janúar og dagana 18. – 24. febrúar fara tveir kennarar frá MB til Danmerkur.  Áætluð nemendaskipti verða skólaárið 2011-2012.