Námsmat í Menntaskóla Borgarfjarðar er fyrst og fremst leiðsagnarmat sem felur í sér að vinna nemenda skuli metin reglulega á meðan á námi stendur.
Leiðsagnarmat byggir meðal annars á góðri endurgjöf á vinnu nemenda á meðan á náminu stendur. Jafnframt veitir leiðsagnarmat kennara tækifæri til að meta aðferðir sínar og árangur kennslunnar.
Góð endurgjöf stuðlar að samræðum um nám og námsmat. Samtöl við kennara hjálpa nemendum að öðlast skilning á væntingum sem gerðar eru til þeirra og viðmiðum, að koma auga á og leiðrétta misskilning og fá skjót svör við vandamálum.
Það kemur vissulega fyrir að nemendur leggja ekki sama skilning og kennarar í hvað felist í markmiðum og viðmiðum varðandi nám. Veikur eða óljós skilningur nemenda á markmiðum hefur ekki einungis áhrif á hvað nemendur gera heldur einnig á gildi þeirra upplýsinga sem felast í endurgjöfinni. Þá getur reynst erfitt fyrir nemandann að leggja mat á bilið milli þeirrar frammistöðu sem farið er fram á og þeirrar frammistöðu sem hann hefur sýnt. Til þess að ganga úr skugga um að endurgjöf hafi tilætluð áhrif og að nemandi læri af henni má til dæmis gefa nemanda tækifæri til þess að skila endurbættu verkefni eða fara yfir í kennslustund hvernig best sé að vinna verkefnið þannig að gott þyki.
Endurgjöf hefur áhrif á hvernig nemendum líður, hvað þeim finnst um sjálfa sig og þar af leiðandi hefur hún áhrif á hvað og hvernig þeir læra. Örar kannanir þar sem einkunnir eru gefnar í tölum geta dregið úr áhuga á námi. Munnleg eða skrifleg endurgjöf, hins vegar, eykur yfirleitt áhuga nemenda á námi og frammistöðu.
Áhugi nemenda og árangur eykst þegar endurgjöf felst í því að gefa upplýsingar um framfarir og árangur fremur en einkunnir sem fela aðeins í sér upplýsingur um árangur eða fall eða hvernig nemandi standi sig miðað við aðra í hópnum. Það getur einnig hjálpað til við að auka áhuga nemenda að gefa ekki einkunnir fyrir skrifleg verkefni fyrr en nemendur hafa fengið tækifæri til að bregðast við endurgjöfinni með því að lagfæra verkefnin, að gefa nemendum tíma til þess að endurskrifa ákveðin verkefni eða að bjóða upp á að nemendur skili uppkasti eða drögum og fái síðan að skila fullunnu verkefni eftir að kennari hefur veitt endurgjöf og bent á leiðir til úrbóta.
Góð endurgjöf er:
- Skýr – nemendur skilja hana.
- Snögg, kemur fljótlega eftir að verkefni er skilað – gildi endurgjafar minnkar eftir því sem lengri tími líður.
- Nákvæm – nemendur velkjast ekki í vafa um hvað þeir hafa gert vel og hvað þeir þurfa að bæta.
- Uppbyggileg – nemendur skilja hvernig þeir eiga að fara að því að bæta árangur sinn.
- Vingjarnleg – það má ekki draga úr neikvæðum þáttum en gæta verður þess að sýna nemandanum virðingu.
- Nothæf – veita þarf nemendum ráðrúm til þess að nota endurgjöfina til þess að bæta vinnu sína.
Góð endurgjöf:
- Auðveldar sjálfsmat og ígrundun í námi.
- Stuðlar að samræðum við kennara og jafningja um námið.
- Auðveldar að skýra í hverju góð frammistaða felst.
- Veitir tækifæri til að brúa bilið milli núverandi frammistöðu og æskilegrar frammistöðu.
- Veitir nemendum gæðaupplýsingar um nám þeirra.
- Eflir áhuga og styrkir sjálfsmynd nemenda.