Hagnýtar upplýsingar fyrir nýja kennara

Húsnæði
Menntaskóli Borgarfjarðar er til húsa í Hjálmakletti við Borgarbraut 54. Húsið er reist sem menningarhús og auk skólans rekur hljóðver RUV á Vesturlandi starfsemi sína þar. Hátíðarsalur skólans er nýttur til kennslu en er jafnframt leigður út fyrir ýmsa viðburði utan skólatíma.

Skrifstofur skólameistara, aðstoðarskólameistara og fjármálastjóra eru á annarri hæð inn af móttökurými. Þar er einnig lítið fundaherbergi sem og vinnustofa kennara. Kennarar vinna í opnu rými en hafa aðgang að eigin bókahillum og læstum skápum fyrir gögn. Kennslustofur eru níu talsins, á fyrstu og annarri hæð skólabyggingarinnar. Skrifstofa námsráðgjafa er á annarri hæð.

Félagsaðstaða nemenda er í Mími, sal í kjallara Hjálmakletts.

Tölvuumsjón
Tölvu- og kerfisumsjón er í höndum þriðja aðila og samningur þar um. Skólameistari ber ábyrgð á eftirfylgni með samningnum. Skólaritari úthlutar lykilorðum sem veita aðgang að netkerfi skólans. Í skólanum er öflugt þráðlaust net sem nemendur hafa aðgang að öllum stundum. Tvö önnur þráðlaus net eru í skólanum; eitt fyrir starfsfólk og annað fyrir gesti hússins.

Inna
Inna (www.inna.is ) er notuð til að halda utan um mætingar nemenda, halda til haga athugasemdum um nemendur og einkunnum. Merkja skal fjarvistir daglega. Til að skrá mætingar í einstökum tímum er smellt á Ft. Þegar smellt er á tölustafinn (númer hóps) sem er innan sviga á eftir áfangaheiti, t.d. (1) á eftir ÍSLE2BG05 þá birtast upplýsingar um hópinn (nöfn, kennitölur, heimilisföng, símanúmer, netföng o.fl.). Með því að smella á viðverulista má fá upplýsingar um fjarvistir nemenda. Umsjónarmaður Innu í Menntaskóla Borgarfjarðar er aðstoðarskólameistari.

Moodle
Námsumsjónarkerfið Moodle heldur utan um alla áfanga í skólanum. Moodle býður upp á mikinn fjölda hagnýtra kennsluverkfæra á borð við öflugt einkunnabókhald, hugbúnað til prófagerðar og verkefnaskila, umræðuþræði, rauntímaspjall, gagnagrunna o. fl. Mögulegt er að skilyrða tímasetningar prófa og verkefna nákvæmlega, birta eða fela efni eftir þörfum, skilyrða þátttöku í prófi miðað við útkomu í fyrra verkefni o.fl. Aðstoðarskólameistari veitir ráðgjöf varðandi Moodle.

Skjávarpar, ljósritun, skrifstofuþjónusta
Skjávarpar, tjald og tengi fyrir fartölvu eru í öllum stofum.

Ljósritunarvél er á skrifstofu skólans á annarri hæð. Vélin er afar fullkomin og getur ljósritað/prentað báðum megin, skannað, heft og gatað. Auðvelt er að skanna inn skjöl og myndir og sendir vélin það sem skannað er sem tölvupóst til viðkomandi kennara. Skólafulltrúi, aðstoðar við notkun vélarinnar og sér um ljósritun fyrir nemendur og kennara eftir þörfum.

Skrifstofuvörur og möppur má finna í ljósritunarherbergi og hjá skólaritara á skrifstofu skólans.

Bókasafn
Ekki er starfrækt bókasafn í Menntaskóla Borgarfjarðar. Skólinn býr þó yfir allnokkrum bókakosti sem geymdur er á fyrstu hæð skólahússins. Nemendur og kennarar hafa aðgang að þeim bókum og þurfa að láta skólafulltrúa vita fái þeir lánaða bók. Héraðsbókasafn Borgarfjarðar veitir nemendum og kennurum MB góða þjónustu.

Mötuneyti
Nemendur og kennarar hafa aðgang að sameiginlegu mötuneyti. Boðið er upp á hefðbundinn heimilismat á vægu verði í hádeginu. Matarmiðar fást hjá skólafulltrúa. Þá geta nemendur og starfsfólk keypt sér morgunmat eða þegið ókeypis hafragraut í morgunhléi kl. 9.40. Einkunnarorð mötuneytisins eru hollusta og góð næring.

Heilsueflandi framhaldsskóli
Menntaskóli Borgarfjarðar tekur þátt í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli sem er á vegum Lýðheilsustöðvar, mennta- og menningarmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, SÍF (Sambands íslenskra framhaldsskólanema) og HÍF (Hagsmunaráðs íslenskra framhaldsskólanema). Markmið þess er að stuðla að velferð og góðri heilsu nemenda og starfsmanna í framhaldsskólum.