Vetrarfrí 24. febrúar

Á morgun 24. febrúar er vetrarfrí í Menntaskóla Borgarfjarðar og skólinn því lokaður.

Lína Langsokkur fær heimsókn

Leikritið Lína Langsokkur er nú í sýningu í Menntaskóla Borgarfjarðar í uppsetningu leikhópsins Sv1. Frumsýning var föstudaginn 17. febrúar og gekk vonum framar. Leikhópurinn ákvað að bjóða Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands og fjölskyldu hans að koma á sýninguna sunnudaginn 19. febrúar og þáði hann það boð og mætti ásamt konu sinni, Elizu Reid, og tveimur yngstu börnunum sínum. Það var ekki annað að sjá en þau skemmtu sér alveg konunglega. Skólastjórnendur, starfsfólk og nemendur Menntaskóla Borgarfjarðar vilja þakka Guðna og fjölskyldu hans kærlega fyrir að gefa sér tíma til að koma og sjá það flotta starf sem leikhópurinn hefur unnið.
Enn eru níu sýningar eftir á dagskrá en finna má upplýsingar um næstu sýningar á facebook síðu leikhópsins “Leikfélagið Sv1”. Við hvetjum alla, unga sem aldna að koma og sjá sýninguna.

 

Leikfélag MB (Sv1) setur upp barnaleikritið Lína langsokkur

Æfingar á barnaleikritinu Lína langsokkur standa nú yfir af fullum krafti í Hjálmakletti. Fjöldi nemenda tekur þátt í sýningunni. Með hlutverk Línu langsokk fer Íris Líf Stefánsdóttir, Phoebe Grey leikur herra Níels, Hafrún Birta Hafliðadóttir fer með hlutverk Önnu og Bjarni Freyr Gunnarsson leikur Tomma. Leikstjóri er Geir Konráð Theodórsson. Frumsýning verður nk. föstudag 17. febrúar kl. 18.

Norskir kennarar í heimsókn í MB

Í dag tóku nemendur og starfsfólk Menntaskóla Borgarfjarðar á móti 5 kennurum frá Nannestad Videregående skole sem er framhaldsskóli staðsettur í Noregi, ekki svo langt frá Osló. Norsku kennararnir vildu kynna sér starfshætti MB, ræða við kennara, hitta nemendur og kanna möguleika á samstarfi milli skólanna tveggja. Heimsóknin gekk vel og ákveðnar hugmyndir komu upp milli íslensku og norsku kennaranna um mögulegt samstarf sem verður skoðað betur á næstu mánuðum. Erlent samstarf er mikilvægt í menntaskólum og getan til að bjóða nemendum tækifæri á að taka þátt í slíkum verkefnum er nauðsynleg.

Menntaskóli Borgarfjarðar er þátttakandi í KOMPÁS Þekkingarsamfélaginu

Menntaskóli Borgarfjarðar er þátttakandi í KOMPÁS Þekkingarsamfélaginu.

Við hjá Menntaskóla Borgarfjarðar erum stoltir þátttakendur í KOMPÁS Þekkingarsamfélaginu. KOMPÁS er öflugur samstarfsvettvangur fjölda fyrirtækja, stofnana, háskóla, framhaldsskóla, sveitarfélaga, stéttarfélaga, fræðsluaðila og fleiri um miðlun hagnýtrar þekkingar. 

Með samstarfinu er búið að byggja upp verkfærakistu atvinnulífs og skóla. Verkfærakista sem fer sífellt stækkandi og inniheldur nú yfir 2.000 skjöl, reiknivélar, eyðublöð, gátlista, verkferla, handbækur og myndbönd, er styður við faglega stjórnun og starfsmannamál. 

Þátttaka í þessu einstaka þekkingarsamfélagi felur í sér fullan aðgang að verkfærakistu KOMPÁS á www.kompás.is og eru Guðrún Björg, Lilja og Helga með aðgang fyrir hönd skólans. 

Margir vinnustaðir miðla einnig af eigin fræðslu- og stuðningsefni inn í verkfærakistuna, sýna samfélagsábyrgð og hjálpa þannig öðrum vinnustöðum í íslensku atvinnulífi að ástunda vönduð vinnubrögð og faglega stjórnun. Enda er samstarf um miðlun þekkingar ávinningur allra og ástæðulaust að vera alltaf að finna upp hjólið.

Við hjá Menntaskólanum sjáum okkur hag af þátttöku í KOMPÁS samfélaginu, með því að gera góðan vinnustað enn betri.

Áskorendadagur nemenda og starfsfólks 2017

Í dag var árlegur áskorendadagur starfsfólks og nemenda í Menntaskóla Borgarfjarðar. Starfsfólk og nemendur kepptu í mismunandi greinum með það að markmiði að hampa farandsbikarnum. Árið 2015 unnu nemendur en að þessu sinni hafði starfsfólk sigur úr býtum í æsispennandi bráðabana. Dagurinn tókst vel og starfsfólk og nemendur MB nutu dagsins saman.

Framhaldsskólaboðhlaup á Reykjavíkurleikum

Laugardaginn 4. febrúar keppti  boðhlaupssveit karla í nafni MB í framhaldsskólaboðhlaupi á Reykjavíkurleikunum en það er eitt flottasta frjálsíþróttamót sem hefur verið haldið á landinu. Var hlaupið 4*200m. Okkar sveit stóð sig mjög vel og lenti í 4. sæti.

Boðhlaupssveitina skipuðu: Arnar Smári Bjarnason, Bjarni Guðmann Jónsson, Jóhannes Valur Hafsteinsson og Steinþór Logi Arnarsson.

Nemendur MB í Háskólahermi

Í dag og á morgun (2. – 3. feb) munu 9 nemendur úr MB taka þátt í Háskólaherminum sem fram fer í HÍ. Í Háskólaherminum gefst nemendum í framhaldsskólum tækifæri til þess að kynnast námsframboði Háskóla Íslands og vera þátttakendur í háskólasamfélaginu. Nemendur fá að heimsækja fræðasvið háskólans og leysa ýmis verkefni sem tengjast námi og störfum viðkomandi sviða.

Innritun á starfsbraut

Innritun nemenda á starfsbraut í Menntaskóla Borgarfjarðar hefst þann 1. febrúar næstkomandi og stendur til 28. febrúar. Umsækjendur sækja sjálfir veflykil á menntagatt.is en að öðru leyti er þessi innritun með sama hætti og almenn innritun.

Umsækjendur og foreldrar eða forráðamenn geta fengið aðstoð við rafræna innritun óski þeir eftir. Einnig er þeim bent á að hafa samband við skrifstofu skólans ef spurningar vakna. Umsækjendum og foreldrum eða forráðamönnum er velkomið að heimsækja skólann og kynna sér starf hans á innritunartímabilinu.

Félagsfræðinemar skrifa í Skessuhorn

Undanfarnar vikur hafa nemendur í félagsfræði verið að fjalla um fjölmiðla. Liður í umfjölluninni að þessu sinni var að skrifa fréttir og greinar í Skessuhorn. Í síðustu tölublöðum hafa nemendur séð um dálkinn “Dagur í lífi” og “Spurning vikunnar” auk viðtals við skiptinemann okkar og umfjöllunar um sýningu leikfélagsins á Línu Langsokki. Verkefnavinna af þessu tagi er liður í að auka samstarf skólans við fyrirtæki og stofnanir í nærsamfélaginu