Blómlegt félagslíf

Síðastliðinn sunnudag var síðasta sýning á Línu Langsokki í uppsetningu Leikfélagsins Sv1. Starfsfólk MB er mjög stolt af leikhópnum og öllum þeim sem komu að sýningunni og vill þakka Geir Konráði Theodórssyni sérstaklega fyrir leikstjórn og utanumhald um sýningarnar og aðkomu grunnskólanemenda. Það var mjög góð aðsókn á leikritið og ánægjulegt að sjá blómlegt leiklistarlíf nemenda. Næsta verkefni í félagslífi skólans er árshátíð nemenda sem haldin verður fimmtudaginn 30. mars en þema hátíðarinnar er “Óskarinn” að þessu þinni. Félagslífið er öflugt um þessar mundir og alltaf eitthvað um að vera. Lífið gengur sinn vanagang og nemendur vinna ötullega að sínum verkefnum. Í MB er gott að vera starfsmaður og nemandi en ég læt þessi orð eins nemanda okkar verða lokaorðin í dag; “Í MB eru allir vinir, allir eitthvað bara að knúsast og hafa það kósý”.

Mín framtíð – Íslandsmót verk- og iðngreina 2017

Fulltrúar Menntaskóla Borgarfjarðar munu kynna skólann á sýningunni Mín framtíð í Laugardalshöllinni dagana 16-18. mars 2017.

Hér fyrir neðan má sjá auglýsingu frá sýningunni.                                          

Mín framtíð – Íslandsmót verk- og iðngreina 2017

Framhaldsskólakynning verður haldin dagana 16. – 18. mars 2017 í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Þarna gefst einstakt tækifæri fyrir verðandi framhaldsskólanemendur til að kynna sér fjölbreytt námsframboð framhaldsskóla landsins en starfsfólk og nemendur 26 skóla munu miðla upplýsingum og fróðleik um námið, félagslífið og framtíðarmöguleika nemenda til náms.

Á sama tíma fer fram í Höllinni Íslandsmót iðn- og verkgreina. Um 150 keppendur munu taka þátt í Íslandsmótinu og keppt verði í 21 iðngrein. Nokkrar greinar til viðbótar verða með kynningu á störfum en alls taka 27 iðn- og verkgreinar þátt í ár. Fagreinarnar bjóða einnig upp á „Prófaðu“ svæði þar sem gestir fá að fikta, smakka og upplifa.

Von er á um 8 þúsund grunnskólanemendum í 9. – 10. bekk alls staðar af landinu í Höllina til að kynna sér námsmöguleika og fjölbreytni iðngreina. Þessi heimsókn er hugsuð sem liður í náms- og starfsfræðslu þessara nemenda og einn liður í að styrkja nemendur í að taka upplýsta ákvörðun um náms- og starfsval.

Á laugardeginum eru fjölskyldur sérstaklega velkomnar. Gefst þá einstakt tækifæri til að upplifa ýmislegt skemmtilegt sem snertir nám og störf í iðn- og verkgreinum. Team Spark kynnir rafmagnsbíl og einnig verður í boði að smakka á veitingum sem útbúnar hafa verið í keppninni.

Mótið fer fram í Laugardalshöll og er opið fyrir gesti sem hér segir:

Fimmtudaginn        16. mars kl. 9 – 16
Föstudaginn           17. mars kl. 9 – 16
Laugardaginn         18. mars kl. 10 – 14

Laugardagurinn er fjölskyldudagur, fræðsla og fjör

Allir velkomnir – enginn aðgangseyrir!

 

Lokaverkefni – málstofur á þriðjudag og fimmtudag

Hluti af náminu í Menntaskóla Borgarfjarðar felst í því að undir námslok vinna nemendur svokölluð lokaverkefni. Lokaverkefni er einstaklingsverkefni þar sem ríkar kröfur eru gerðar um sjálfstæð og vönduð vinnubrögð. Lokaverkefnin veita nemendum tækifæri til að dýpka skilning sinn á afmörkuðu sviði og gegna mikilvægu hlutverki við að þjálfa þá í að beita viðurkenndum aðferðum við meðferð heimilda, rannsókn eða lausn viðfangsefna og undirbúa þá enn frekar undir háskólanám.

Nú í vikunni kynna nemendur í LOKA3LH04 viðfangsefni sín á málstofum sem haldnar verða þriðjudaginn 28. febrúar og fimmtudaginn 2. mars. Málstofurnar verða í stofu 100 og hefjast klukkan 9:00 á þriðjudag og kl. 11:20 á fimmtudag. Öllum er frjálst að koma og fylgjast með kynningum á verkefnum og umræðum um þau.

Vetrarfrí 24. febrúar

Á morgun 24. febrúar er vetrarfrí í Menntaskóla Borgarfjarðar og skólinn því lokaður.

Lína Langsokkur fær heimsókn frá forseta Íslands

Leikritið Lína Langsokkur er nú í sýningu í Menntaskóla Borgarfjarðar í uppsetningu leikhópsins Sv1. Frumsýning var föstudaginn 17. febrúar og gekk vonum framar. Leikhópurinn ákvað að bjóða Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands og fjölskyldu hans að koma á sýninguna sunnudaginn 19. febrúar og þáði hann það boð og mætti ásamt konu sinni, Elizu Reid, og tveimur yngstu börnunum sínum. Það var ekki annað að sjá en þau skemmtu sér alveg konunglega. Skólastjórnendur, starfsfólk og nemendur Menntaskóla Borgarfjarðar vilja þakka Guðna og fjölskyldu hans kærlega fyrir að gefa sér tíma til að koma og sjá það flotta starf sem leikhópurinn hefur unnið.
Enn eru níu sýningar eftir á dagskrá en finna má upplýsingar um næstu sýningar á facebook síðu leikhópsins “Leikfélagið Sv1”. Við hvetjum alla, unga sem aldna að koma og sjá sýninguna.

 

Leikfélag MB (Sv1) setur upp barnaleikritið Lína langsokkur

Æfingar á barnaleikritinu Lína langsokkur standa nú yfir af fullum krafti í Hjálmakletti. Fjöldi nemenda tekur þátt í sýningunni. Með hlutverk Línu langsokk fer Íris Líf Stefánsdóttir, Phoebe Grey leikur herra Níels, Hafrún Birta Hafliðadóttir fer með hlutverk Önnu og Bjarni Freyr Gunnarsson leikur Tomma. Leikstjóri er Geir Konráð Theodórsson. Frumsýning verður nk. föstudag 17. febrúar kl. 18.

Norskir kennarar í heimsókn í MB

Í dag tóku nemendur og starfsfólk Menntaskóla Borgarfjarðar á móti 5 kennurum frá Nannestad Videregående skole sem er framhaldsskóli staðsettur í Noregi, ekki svo langt frá Osló. Norsku kennararnir vildu kynna sér starfshætti MB, ræða við kennara, hitta nemendur og kanna möguleika á samstarfi milli skólanna tveggja. Heimsóknin gekk vel og ákveðnar hugmyndir komu upp milli íslensku og norsku kennaranna um mögulegt samstarf sem verður skoðað betur á næstu mánuðum. Erlent samstarf er mikilvægt í menntaskólum og getan til að bjóða nemendum tækifæri á að taka þátt í slíkum verkefnum er nauðsynleg.

Menntaskóli Borgarfjarðar er þátttakandi í KOMPÁS Þekkingarsamfélaginu

Menntaskóli Borgarfjarðar er þátttakandi í KOMPÁS Þekkingarsamfélaginu.

Við hjá Menntaskóla Borgarfjarðar erum stoltir þátttakendur í KOMPÁS Þekkingarsamfélaginu. KOMPÁS er öflugur samstarfsvettvangur fjölda fyrirtækja, stofnana, háskóla, framhaldsskóla, sveitarfélaga, stéttarfélaga, fræðsluaðila og fleiri um miðlun hagnýtrar þekkingar. 

Með samstarfinu er búið að byggja upp verkfærakistu atvinnulífs og skóla. Verkfærakista sem fer sífellt stækkandi og inniheldur nú yfir 2.000 skjöl, reiknivélar, eyðublöð, gátlista, verkferla, handbækur og myndbönd, er styður við faglega stjórnun og starfsmannamál. 

Þátttaka í þessu einstaka þekkingarsamfélagi felur í sér fullan aðgang að verkfærakistu KOMPÁS á www.kompás.is og eru Guðrún Björg, Lilja og Helga með aðgang fyrir hönd skólans. 

Margir vinnustaðir miðla einnig af eigin fræðslu- og stuðningsefni inn í verkfærakistuna, sýna samfélagsábyrgð og hjálpa þannig öðrum vinnustöðum í íslensku atvinnulífi að ástunda vönduð vinnubrögð og faglega stjórnun. Enda er samstarf um miðlun þekkingar ávinningur allra og ástæðulaust að vera alltaf að finna upp hjólið.

Við hjá Menntaskólanum sjáum okkur hag af þátttöku í KOMPÁS samfélaginu, með því að gera góðan vinnustað enn betri.

Áskorendadagur nemenda og starfsfólks 2017

Í dag var árlegur áskorendadagur starfsfólks og nemenda í Menntaskóla Borgarfjarðar. Starfsfólk og nemendur kepptu í mismunandi greinum með það að markmiði að hampa farandsbikarnum. Árið 2015 unnu nemendur en að þessu sinni hafði starfsfólk sigur úr býtum í æsispennandi bráðabana. Dagurinn tókst vel og starfsfólk og nemendur MB nutu dagsins saman.

Framhaldsskólaboðhlaup á Reykjavíkurleikum

Laugardaginn 4. febrúar keppti  boðhlaupssveit karla í nafni MB í framhaldsskólaboðhlaupi á Reykjavíkurleikunum en það er eitt flottasta frjálsíþróttamót sem hefur verið haldið á landinu. Var hlaupið 4*200m. Okkar sveit stóð sig mjög vel og lenti í 4. sæti.

Boðhlaupssveitina skipuðu: Arnar Smári Bjarnason, Bjarni Guðmann Jónsson, Jóhannes Valur Hafsteinsson og Steinþór Logi Arnarsson.