Forinnritun í framhaldsskóla á haustönn 2018

Forinnritun nemenda í 10. bekk mun standa yfir dagana 5. mars til 13. apríl

Forinnritun nemenda í 10. bekk (fæddir 2002 eða síðar) hófst mánudaginn 5. mars og lýkur föstudaginn 13. apríl. Nemendur fá bréf frá Menntamálastofnun með veflykli að innritunarvef og leiðbeiningum sem afhent verður í grunnskólunum. Foreldrar/forráðamenn nemenda fá bréf í pósti frá Menntamálastofnun með upplýsingum um innritunina. Nemendur í 10. bekk eru eindregið hvattir til að taka þátt í forinnrituninni. Sjá nánar á menntagatt.is

Þemadagar í MB

Dagana 28. febrúar – 3. mars eru þemadagar í MB. Hefðbundin kennsla er lögð niður en þess í stað vinna nemendur að ýmsum verkefnum í stærri og minni hópum. Slíkt uppbrot á skólastarfi tíðkast víða í framhaldsskólum og er kærkomin tilbreyting fyrir bæði nemendur og kennara.
Þema þessara daga er Saga jarðvangur og munu hóparnir vinna að ýmsum verkefnum tengt þemanu. Auk þess að vinna saman í hópum hlustuðu nemendur á tvö erindi, annars vegar kynningu á Sögu jarðvangi og hins vegar um hópvinnu.
Þemadögum lýkur á morgun 2. mars. Þá kynna nemendur niðurstöður sínar og verður afrakstur vinnunnar birtur á sérstakri heimasíðu viðfangsefnisins. Hér má svo sjá verkefni nemenda í formi vefsíðu.

Málstofa – lokaverkefni í MB

Hluti af náminu í Menntaskóla Borgarfjarðar felst í því að undir námslok vinna nemendur svokölluð lokaverkefni. Lokaverkefni er einstaklingsverkefni þar sem ríkar kröfur eru gerðar um sjálfstæð og vönduð vinnubrögð. Lokaverkefnin veita nemendum tækifæri til að dýpka skilning sinn á afmörkuðu sviði og gegna mikilvægu hlutverki við að þjálfa þá í að beita viðurkenndum aðferðum við meðferð heimilda, rannsókn eða lausn viðfangsefna og undirbúa þá enn frekar undir háskólanám.

Úskriftarnemar við MB vinna nú að lokaverkefnum sínum við skólann. Viðfangsefni nemenda eru fjölbreytt má þar nefna; kvíða í íþróttum, atburðurinn í Dunkirk, lesblindu, sykursýki 1, mígreni, knattspyrnufélagið Liverpool, frjálsar íþróttir, kvíði barna og þunglyndi, hersetuna við Reykjatanga, Nike vörumerkið, kvíðaröskun barna og unglinga, skyrgerð, sögu verslunar í Dalasýslu og flugsögu Íslands. Nemendur kynntu verkefni sín og svöruðu fyrirspurnum á málstofum vikunnar.  Kynningarnar voru góðar og augljóst að nemendur hafa lagt metnað í vinnuna.