Heimsókn frá Stígamótum

Stígamót hafa ákveðið að hefja reglubundna þjónustu á Vesturlandi á tveggja vikna fresti. Starfsemin verður í Borgarnesi og í boði verða gjaldfrjáls viðtöl við félagsráðgjafa fyrir fólk af öllu Vesturlandi.

Í morgun var velheppnaður kynningarfundur frá Stígamótum fyrir nemendur og starfsmenn skólans. Þær Guðrún og Erla Björg fjölluðu almennt um starfsemi og þjónustu Stígamóta. Vakti erindi þeirra fólk til umhugsunar og umræðu um kynferðisofbeldi.

Nemendur skrifa í Skessuhorn

Miðvikudaginn 11. janúar síðastliðinn kom Magnús Magnússon, ritstjóri Skessuhorns, í heimsókn í félagsfræðitíma tilþess að kynna fyrir nemendum starfsemi Skessuhorns og starfs blaðamanna á blaðinu. Nemendurnir lærðu heilmikið af þessari heimsókn og vilja þakka Magnúsi kærlega fyrir fróðlega kynningu. Á næstunni muni nemendurnir síðan skrifa fréttir í Skessuhorn sem munu birtast á vef Skessuhorns og í blaðinu. Nemendurnir fengu sjálfir að velja sér umfjöllunarefni og hafa síðan þá unnið hörðum höndum við það að vinna fréttirnar. Þetta verkefni gefur góða innsýn inn í störf blaðamanna og fréttaritara og kemur því þeim nemendum sem hafa áhuga á blaðamennsku og fjölmiðlum mjög vel.

Jöfnunarstyrkur

Sækir þú nám fjarri lögheimili og fjölskyldu?

Kynntu þér reglur um námsstyrki og leiðbeiningar um skráningu á www.lin.is
Hægt er að skrá umsókn á Innu vefkerfi framhaldsskólanna eða í netbankanum!

Umsóknarfrestur vegna vorannar 2017 er til 15. febrúar næstkomandi!

Lánasjóður íslenskra námsmanna
Námsstyrkjanefnd

Þrír nemendur útskrifuðust með stúdentspróf í desember

Þrír nemendur, Bergþóra Lára Hilmarsdóttir, Hera Sól Hafsteinsdóttir og Stefnir Ægir Berg Stefánsson,  útskrifuðust með stúdentspróf frá Menntaskóla Borgarfjarðar þann 20. desember síðastliðinn. Þau luku öll námi af náttúrufræðibraut. 

Á myndinni má sjá Bergþóru Láru ásamt Lilju S. Ólafsdóttur aðstoðarskólameistara

Gleðileg jól og farsælt komandi ár

Starfsfólk Menntaskóla Borgarfjarðar óskar nemendum, foreldrum og öllum velunnurum skólans gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Skrifstofa skólans verður lokuð til 4. janúar en skóli hefst samkvæmt stundatöflu föstudaginn 6. janúar. Hægt er að ná í skólameistara í síma 894-1076 ef málin þola ekki bið.

Skólastarf á vorönn 2017

Skólastarf á vorönn hefst föstudaginn 6. janúar næstkomandi. Nýnemar fá stundaskrár sínar sendar í tölvupósti 4. janúar en kennsla hefst samkvæmt stundaskrá klukkan 8:20 þann 6. janúar. Stundaskrár eldri nemenda verða aðgengilegar í Innu miðvikudaginn 4. janúar 2017.

Skólagjöld fyrir vorönn eru 12.000 krónur og samanstanda af 7.000 króna innritunargjaldi og 5.000 króna þjónustugjaldi. Eindagi þessara gjalda er 3. janúar.

Nemendafélagsgjald fyrir vorönnina er 3.500 krónur. Nemendur eru hvattir til að taka þátt í starfi nemendafélagsins og eiga þátt í að móta og efla félagslíf í MB.

Bókalista og allar nánari upplýsingar um skólastarfið er að finna á heimasíðu skólans.

Birting einkunna í Innu

Einkunnir haustannar verða birtar í Innu þriðjudaginn 20. desember kl. 12:00

Jólapeysudagur nemenda og starfsfólks MB

Hinn árlegi jólapeysudagur nemenda og starfsfólks MB var í dag. Nemendur og starfsfólk mættu til vinnu í jólapeysum í tilefni dagsins.

Menntskælingar í útvarpi

first-public-radio-broadcast

Jólaútvarp Óðals fór í loftið í gærmorgun 12. des með pompi og prakt þar sem unglingar grunnskólans í Borgrnesi standa fyrir fjölbreyttri útvarpsdagskrá. Okkar fólk hér í Menntaskóla Borgarfjarðar lætur ekki sitt eftir liggja og tekur þátt í fjörinu. Nemendur MB standa fyrir tveimur þáttum, annars vegar mun leikfélagið Sv1 flytja þátt kl:16:00 í dag. Og fara yfir leikstarfið sem framundan er ásamt fleiru.

Á miðvikudagskvöld mun stjórn NMB flytja tveggja klukkustunda þátt um lífið, tilveruna og félagsstarfið í Menntaskóla Borgarfjarðar. Þátturinn hefst stundvíslega kl:20:00. og stendur til kl:22:00. Mímir verður opinn á meðan okkar fólk er í loftinu en þar mun jólaandinn ráða ríkjum með tilheyrandi jólastemningu piparkökum og kakói.

Jólakveðja

larus

Nemandi á starfsbraut óskar félögum sínum gleðilegra jóla og býður upp á jólasælgæti sem félagarnir eru ánægðir með.