Innritun í framhaldsskóla á vorönn 2019

Opið fyrir umsóknir dagana 1. – 30. nóvember.

Sameiginlegt umsóknartímabil framhaldsskóla sem bjóða upp á innritun fyrir nám á vorönn 2019 verður dagana 1. – 30. nóvember. Skráning fer fram rafrænt á menntagatt.is  Nánari upplýsingar um skráningu gefur skrifstofa skólans í síma 4337700

Ég á bara eitt líf – heimsókn í MB

Í dag fengum við góða gesti í heimsókn frá minningarsjóði Einars Darra, „Ég á bara eitt líf“ sem leggur áherslu á og einblínir á forvarnir er varpa ljósi á þann allsherjar vanda sem misnotkun á lyfjum er hér á landi og þá sérstaklega á meðal unglinga, allt niður í nemendur grunnskóla. Það voru fjölskylda og vinir Einars Darra sem komu til okkar en þau kynntu forvarnarstarfið, sögðu frá lífi Einars Darra og deildu með okkur sinni sögu af hræðilegasta degi í lífi þeirra, deginum sem Einar Darri dó. Samkoman var vel sótt af starfsfólki og nemendum Menntaskóla Borgarfjarðar sem hlustuðu á frásagnir gestanna af miklum áhuga og athygli. Við erum þakklát fyrir heimsóknina ekki síst af því að við sáum og fundum hversu mikil áhrif heimsóknin hafði á okkur öll. Í lokin fengu allir nemendur armbönd með orðunum „Ég á bara eitt líf“, Minningarsjóður Einars Darra.  Armböndin eru kærleiksgjöf frá minningarsjóðnum og að bera armbandið er tákn um samstöðu en einnig er það ætlað til að fá fólk, sér í lagi ungmenni, til að horfa á armbandið og hugsa sig tvisvar um áður en þau misnota lyf eða önnur fíkniefni. Fyrir nokkru var gert myndband #egabaraeittlif og nú stendur minningarsjóðurinn að gerð videoklippum og hér er linkur á klippu 1. Við hvetjum alla til að kynna sér málið.

Útivistaráfangi í fyrsta sinn

Í vor bauðst nemendum að velja sér nýjan valáfanga sem heitir Útivist. Megin markmið áfangans var að bjóða nemendum uppá heilsueflandi upplifun ásamt því að þjálfa þau í að undirbúa sig fyrir gönguferðir og útivist.
Alls 16 nemendur gátu tekið þátt enda var plássið í gistiskálanum takmarkað. Áfanginn fylltist fljótlega og þegar kennararnir Bjarni og Sössi hittu nemendur í ágúst þá var ljóst að eftirvæntingin var mikil.
Ákveðið var að leggja af stað á hádegi föstudaginn 31.ágúst og gista eina nótt. Fyrst átti að leggja af stað frá Hreðarvatni og byrja á því að klífa Vikrafell en þar sem veðurútlitið á föstudeginum var óljóst þá var ákveðið að keyra áleiðis að Langavatni og hefja gönguna við Gljúfurá. Fyrri dagurinn var styttri eða rúmir 10 kílómetrar og var komið að leitarkofanum við Torfhvalastaði seinnipart dags eftir þægilegan göngutúr í góðu veðri.
Þá höfðu aðstoðarmenn okkar komið með mat og svefnbúnað á kerru upp að skálanum og því var ekki mikill farangur sem göngumenn þurftu að burðast með.
Þegar allir höfðu komið sér fyrir þá tóku kennararnir fram súpu sem Lilja Bríet matráður skólans hafði galdrað fram og allir gátu borðað sig pakksadda ásamt brauði og smjöri.
Þar sem ekkert netsamband var í skálanum þá voru fljótlega allir farnir að spila á spil. Í kvöldkaffinu var dregin fram hjónabandssæla ásamt kexi og heitu kakói. Einhver þreyta gerði vart við sig því allir voru sofnaðir um klukkan 22:30. Að morgni laugardagsins var borðaður morgunmatur og tiltekt hófst, það gekk vel og allir voru tilbúnir að ganga af stað klukkan 9:00.
Enn var breytt um gönguleið og í staðinn fyrir að fara norður fyrir Langavatn þá var stefnan tekin á Valbjarnarvallamúlann og svo þaðan niður að Valbjarnarvöllum. Laugardagsgangan var um 14 kílómetrar og flestir göngumenn voru við hestaheilsu þegar niður var komið.
Almenn ánægja var með þessa ferð og miklar líkur á því að þetta verði aftur í boði að ári.
BÞT