Afrakstur stefnumótunardags 23. október 2018

Lilja Ólafsdóttir Fréttir

Stefnumótunardagur, sem haldinn var í MB á þriðjudaginn, tókst vel og voru nemendur þar í fararbroddi hvað varðar hugmyndavinnu og þátttöku í verkefnum tengdum stefnu skólans.
Fyrir hádegi var dagskráin blanda af samhristingi, fræðslu og umræðu um sérstöðu skólans. Eftir hádegi unnu nemendur og starfsfólk í smiðjum eftir áhugasviði og áttu að móta hugmyndir og útfæra þær í takt við stefnu skólans og framtíðarsýn.

Flestir nemendur tóku þátt í smiðju um félagslíf og skemmst er frá því að segja að út úr þeirri vinnu komu góðar hugmyndir sem strax voru útfærðar og stofnaðar stjórnir um ákveðin verkefni og viðburði sem munu án efa efla félagslíf til muna.

Einn hópur tók að sér að ræða MB sem skóla framtíðarinnar og þar voru áhugaverðar og framsæknar hugmyndir sem gaman verður að vinna áfram innan skólans.

Hópur um heilsueflandi framhaldsskóla greindi frá því að samkvæmt grunnþættinum í aðnámskrá „Heilbrigði og velferð“ flokkast heilbrigði undir það að einstaklingi líði vel andlega, líkamlega og félagslega. Hugmyndir hópsins voru því tengdar þessari skilgreiningu og gott að geta sagt frá því að hópurinn týndi saman það sem skólinn er nú þegar að gera til að standa vörð um heilbrigði og velferð nemenda en það eru þættir eins og til dæmis hollur matur og frí sálfræðiþjónusta í samvinnu við Stéttarfélag Vesturlands. Einnig bentu nemendur á að mikil áhersla er á íþróttaiðkunn við skólann og reynt að koma til móts við ólíkar þarfir einstaklinga hvað snertir ástundun líkamsræktar í fjölbreyttu formi.

Fleiri hópar voru að störfum sem fjölluðu um námsframboð, námsumhverfi, samstarf innanlands og erlendis, þátttöku í verkefninu Skóli á grænni grein og rætt um skólahúsnæðið og skólalóðina. Í þessum hópum komu fram góðar hugmyndir eins og þeim ofangreindu. Til dæmis voru nemendur með hugmynd um skapandi áfanga sem flæðir yfir nokkar annir og Grænfánahópurinn kom með góð ráð um hvernig við getum í daglegu starfi skólans hugað að umhverfisvernd, hópurinn sem fjallaði um námsumhverfi lagði til að gera skólann meira “kósý” og vinnuaðstöðu nemenda fjölbreyttari. Hópurinn sem fjallaði um samstarf setti fram metnaðarfullar hugmyndir sem tengjast erlendu samstarfi með menningarfræðslu að leiðarljósi. Einnig lagði hópurinn til að innanlands væri hægt að skoða meira samstarf við aðra skóla og skólastig og skoða iðnnám í samvinnu við fyrirtæki í nærumhverfinu.

Það má því með sanni segja að nemendur hafi verið frjóir í hugsun og að í hugmyndabankann séu komnar margar góðar hugmyndir sem stjórnendur skólans vonast til að geta hrint í framkvæmd sem fyrst. Takk fyrir góðan dag allir sem tóku þátt.