Home » Fréttir

Category Archives: Fréttir

Skóladagur í Borgarbyggð

Skóladagur Borgarbyggðar var haldinn á laugardaginn og þótti takast einmuna vel. Þar komu saman öll skólastig í Borgarbyggð en sveitarfélagið hefur sterka sérstöðu hvað varðar skóla í sínu samfélagi allt frá leiksskólum og upp í háskóla. Tilgangur dagsins var að gera eitthvað skemmtilegt og gagnlegt saman og að stimpla vel inn þýðingu skólanna í samfélaginu, kynna skólastarfið og skapa jákvæðni í garð skólanna. Það var markmið skipuleggjenda að blanda saman skemmtun, fróðleik, boðskap, umræðum og leikjum ásamt því að virkja frumkvæði og sköpunargleði. Gestir og gangandi ásamt þátttakendum voru ánægðir með daginn og nokkuð ljóst að öflugt skólastarf er í Borgarbyggð á öllum skólastigum. Fleiri myndir á facebook síðu Menntaskóla Borgarfjarðar.

 

Menntaskóli Borgarfjarðar í Laugardalshöll

MB var með sýningarbás á framhaldsskólakynningum í Laugardalshöll fimmtudaginn og föstudaginn 14. og 15. mars. Nemendur úr MB kynntu skólann en gestir í Laugardalshöll sýndu MB mikinn áhuga. Viðburðurinn ber heitið Mín framtíð 2019 og er Íslandsmót iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynningar. Þessi viðburður er haldinn annað hvert ár en þetta er í annað sinn sem MB tekur þátt.

Forseti Íslands heimsótti bás MB, gaf sér góðan tíma til að ræða við Lindu Rós og Örnu Hrönn, sem voru að kynna MB á þeim tíma og sýndi þeim mikinn áhuga á hvert þær stefndu í framtíðinni.

Útivistarferð nemenda MB

Föstudaginn 8. mars fóru 21 nemandi ásamt kennurunum Bjarna og Sössa í útivistarferð í Skálafell. Ferðin var liður í útivistaráfanga sem þeir félagar stýrðu fyrir hönd Menntaskóla Borgarfjarðar.

Upphafleg hugmynd var að skíða en þar sem við búum á Íslandi þar sem aldrei er hægt að treysta á veðrið var plan B til staðar frá upphafi skipulagningar. Það kom svo á daginn að ekki væri hægt að skíða og því var farið í gönguferðir, rennt sér á rassaþotum og umhverfið skoðað. Gist var eina nótt en á föstudagskvöldinu var kvöldvaka þar sem mikið var spilað á spil. Nemendur og kennarar eru sammála um að ferðin hafi jafnt verið fróðleg og skemmtileg og við gerum ráð fyrir að útivistaráfangi verði í boði á hverri önn við MB í framtíðinni.