Námsmat

Samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla skal námsmat byggja á margvíslegum námsmatsaðferðum og fela í sér traustar heimildir um hæfni nemenda. Námsmatið á að taka til allra þátta námsins þannig að þekking nemandans, leikni og hæfni auk framfara sé metin. Námsmatsaðferðir geta verið verklegar, munnlegar eða skriflegar, falið í sér jafningjamat, símat og lokamat.

Námsmat í MB byggist fyrst og fremst á leiðsagnarmati en formleg annarpróf í lok anna eru ekki til staðar. Vinna nemenda er metin jafnóðum allan námstímann. Megintilgangur leiðsagnarmats er að gera nemendur meðvitaða um það sem þeir læra, hvernig þeir læra og hvað er ætlast til af þeim. Leiðsagnarmat byggist því á góðri endurgjöf frá kennurum, sem nemendur geta nýtt sér til að verða meðvitaðir um eigin námsframvindu.
Kennari veitir hverjum nemanda um sig almenna umsögn og leiðbeiningar um gengi nemandans í áfanganum á svokölluðum vörðum, eða með öðrum, sambærilegum hætti, án þess að einkunn fylgi með. Vörður eru þrisvar á önn. Leiðsagnarmat felur í sér, að jafnframt einkunn fyrir hvert próf eða verkefni veitir kennari nemanda leiðsögn um það sem betur má fara á næsta prófi / verkefni.

Námsmatið felur því í sér, að einkunnir nemenda fyrir verkefni og próf safnast saman og reiknast saman til lokaeinkunnar.

Vörður, eða önnur sambærileg leiðsögn, miðast við vinnu nemenda (úrlausnir á prófum og verkefnum, þátttöku í umræðum o.s.frv.) Til að leiðsögn komi nemendum að raunverulegu gagni þarf kennari að gera nemendum grein fyrir því við hvaða þætti hann miðar leiðsögnina.

Í grundvallaratriðum er leiðsögn á vörðum þrískipt: Mjög gott (öllum markmiðum náð); í lagi (helstu markmiðum náð); ófullnægjandi (markmiðum ekki náð). Við þetta bætast síðan nánari leiðbeiningar kennara um hvað nemandi þarf að bæta til að ná markmiðum áfangans.

Námsmat skólans getur byggst á ýmsum matsaðferðum, s.s. einstaklingsverkefnum, hópaverkefnum og prófum. Til að fyrirbyggja að nemandi geti leitað sér utankomandi aðstoðar við vinnu verkefna er nauðsynlegt að a.m.k. 50% af námsmati áfanga byggi á vinnu nemenda í kennslustundum. Verkefni eru unnin sem einstaklingsverkefni, í hópum eða sem paraverkefni. Æskilegt er að hópaverkefni gildi ekki meira en 30% af heildareinkunn annar.

Einkunnir eru gefnar í heilum tölum á bilinu 1 – 10 eins og um getur í reglugerð menntamálaráðuneytis.

Einkunn  Markmið
10 –     95 – 100%
9  –      85 – 94%
8  –      75 – 84%
7  –      65 – 74%
6  –      55 – 64%
5  –      45 – 54%
4  –      35 – 44%
3  –      25 – 34%
2  –      15 – 24%
1  –       0 – 14%

Að gefnu tilefni skal þess getið að formleg skrifleg próf eru hluti af ofangreindum matsaðferðum. Til að standast námsmat í áfanga og fá leyfi til að hefja ám í næsta áfanga þarf lágmarkseinkunnina 5.

Úr aðalnámskrá bls. 26

Fjölbreyttar matsaðferðir
Markmið skólastarfs eru margvísleg og hægt að fara ýmsar leiðir til að ná þeim. Því verða matsaðferðir að vera fjölbreyttar. Þær skulu vera í samræmi við hæfniviðmið, endurspegla áherslur í kennslu og taka mið af nemendum. Námsmat á að vera áreiðanlegt, óhlutdrægt, heiðarlegt og sanngjarnt. Meta þarf alla þætti námsins, þekkingu, leikni og hæfni með hliðsjón af viðmiðum í aðalnámskrá.

Kennarar þurfa að hjálpa börnum og ungmennum til raunhæfs sjálfsmats, gera þeim grein fyrir markmiðum náms og hvernig miðar í átt að þeim. Leggja skal áherslu á leiðsagnarmat þar sem nemendur velta reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Nemendum þarf að vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í matinu.

Tilhögun námsmats þarf að vera fjölbreytt og í samræmi við áherslur í skólastarfi og höfða til sem flestra námsþátta. Þannig skal meta munnleg verkefni, verkleg og skrifleg, myndræn, stuttar afmarkaðar æfingar og dýpri athuganir, einstaklingsverkefni og hópverkefni, verkefni sem unnin eru á afmörkuðum tíma og óafmörkuðum og próf af ýmsu tagi. Mappa eða vinnubók, þar sem safnað er saman verkefnum og úrlausnum, t.d. með rafrænum hætti, getur hentað vel til að fá yfirsýn yfir það hversu vel nemandinn hefur unnið og gefið vísbendingar um ástundun, virkni, vinnubrögð, framfarir nemenda og félagsfærni. Námsmat þarf að taka tillit til þarfa nemenda og sértækra námsörðugleika þeirra. Skólum ber að gera það sem unnt er til þess að koma til móts við þarfir hlutaðeigandi í þessu efni. Þessir nemendur skulu eiga kost á frávikum frá almennu námsmati, t.d. lengri próftíma, sérhönnuð próf, notkun hjálpargagna, aðstoð og munnlegt námsmat.