Hin árlega ræðukeppni ESU (English Speaking Union of Iceland) var haldin í þriðja sinn í Háskólanum í Reykjavík sl. laugardag kl. 9:30. Menntaskóli Borgarfjarðar sendi þrjá nemendur til þátttöku í keppninni. Þeir stóðu sig með prýði en þetta er í annað sinn sem MB sendir þátttakendur í þessa keppni og sömdu nemendur ræður sem tóku 5 mínútur í flutningi en umfjöllunarefnið í ár var „The Wisdom of Youth“. Bogi Ágústsson stjórnaði umræðum og þurftu þátttakendur að svara tveimur spurningum frá dómnefnd eða frá áhorfendum í lok ræðu sinnar.
%%anc%%
Þátttakendur frá MB í ár voru þeir Gunnlaugur Yngvi Sigfússon, Borgarnesi, nemi á 2. ári og nýnemarnir Styrmir Ingi Stefánsson, Hvanneyri og Sveinn Jóhann Þórðarson frá Skálholti á Barðaströnd.
Keppendur voru 19 alls og fór útsláttarkeppni fram eftir hádegi á föstudeginum svo og fyrir hádegi á laugardag. Til gamans má geta þess að þátttakendur voru einungis frá stóru framhaldsskólunum á höfuðborgarsvæðinu en aðeins einn keppandi kom frá MA og þrír frá MB.
Sigurvegarinn í ár var Sigríður María Egilsdóttir frá Verslunarskóla Íslands en hún fær að launum ferð til Lundúna þar sem hún mun dvelja í 1 mánuð og mun hún auk þess taka þátt í alþjóðlegri ræðukeppni sem fram fer í maí.