Ferðamálafræði í MB

RitstjórnFréttir

Undanfarin ár hefur verið boðið upp á valáfanga í ferðamálafræði í Menntaskóla Borgarfjarðar. Meginmarkmið áfangans er að efla þekkingu og skilning nemenda á ferðaþjónustu og kynna grundvallarhugtök ferðaþjónustugeirans. Áhersla er lögð á nærumhverfið,  landafræði, sögu, þjónustu, fræðslu, handverk og afþreyingu í Borgarfirði.

Sú venja hefur skapast að fá fyrirlesara úr héraði til að kynna ýmis málefni er tengjast ferðaþjónustu. Nú á haustönn hafa heimsótt skólann þau Ragnar Frank Kristjánsson, landslagsarkitekt, sem talaði um aðgengi og ytri skipulagsmál í Borgarnesi og nágrenni, Sigursteinn Sigurðsson, arkitekt, kynnti framtíðarhugmyndir sínar um Borgarnes, Elísabet Haraldsdóttir, menningarfulltrúi Vesturlands, talaði um menningartengda ferðaþjónustu og skapandi hugsun og Guðrún Kristjánsdóttir sagði frá rekstri Hvíta bæjarins á Hamri og námi í ferðamálafræði við Háskólann á Hólum. Von er á fleiri gestum því síðar á önninni mun Þóra Árnadóttir segja frá starfi sínu sem ferðaþjónustubóndi á Brennistöðum í Flókadal og loks mun Einar Þorvaldur Eyjólfsson koma og ræða viðskipti og markaðsmál í tengslum við ferðaþjónustu. Að sögn Ingibjargar Ingadóttur, sem hefur umsjón með áfanganum, hefur verið ákaflega fróðlegt og skemmtilegt að fá þetta fólk í heimsókn og hlusta á það miðla af reynslu sinni og þekkingu.