Sýning Leikfélags MB á Litlu hryllingsbúðinni hefur fengið frábærar viðtökur og mikil eftirspurn er eftir miðum. Nú hefur verið ákveðið að bæta við aukasýningum, þriðjudaginn 27. nóvember og fimmtudaginn 29. nóvember. Sýningarnar hefjast klukkan 20.00.
Í Litlu hryllingsbúðinni segir frá munaðarleysingjanum Baldri sem lifir frekar fábrotnu lífi. Hann vinnur í lítilli blómabúð í skuggahverfi stórborgar, hjá Músnikk, sem tók Baldur í fóstur. Viðskiptin ganga fremur illa og blómabúðin er um það bil að leggja upp laupana. Í blómabúðinni vinnur auk Baldurs, sæta ljóskan Auður sem hann er ástfanginn af. En Auður á kærasta, leðurklæddan og ofbeldisfullan tannlækni, sem ferðast um á mótorhjóli og beitir hana ofbeldi. Dag einn kaupir Baldur dularfulla plöntu, sem hann nefnir Auði II. Eftir því sem plantan vex og dafnar aukast viðskiptin í blómabúðinni og Baldur verður æ vinsælli. Kvöld eitt uppgötvar hann að plantan getur talað og hún lofar honum frægð og frama, gulli og grænum skógum. En sá galli er á gjöf Njarðar að plantan nærist á mannablóði og vill helst fá ferskt mannakjöt að borða.
Miða á sýninguna má panta í síma: 616-7417 (Bjarki Þór) eða 862-8582 (Berglind). Einnig er hægt að panta miða með því að senda póst á netfangið: leikfelag@menntaborg.is Almennt miðaverð er 2000 krónur, 1500 fyrir félaga í Nemendafélagi MB, 1000 krónur fyrir 6 – 10 ára og frítt fyrir 5 ára og yngri.
Meðfylgjandi mynd er af leikhópnum sem stendur að sýningunni. Fremstur fyrir miðju er Magnús Kristjánsson sem fer með hlutverk Baldurs og yst til hægri má sjá Ísfold Grétarsdóttur sem leikur Auði.