Inga Björk Bjarnadóttir hlaut hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands í flokki einstaklinga, en verðlaunin voru afhent á alþjóðadegi fatlaðra þann 3. desember síðastliðinn. Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn sem fram fór í Salnum í Kópavogi. Í umsögn valnefndar sagði að Inga Björk hafi hlotið verðlaunin fyrir að vera öðrum fyrirmynd og fyrir að berjast fyrir bættri þjónustu fyrir fatlað fólk í Borgarbyggð. Inga, sem hefur verið bundin við hjólastól frá fjögurra ára aldri, er 19 ára gömul og varð stúdent frá Menntaskóla Borgarfjarðar sl. vor. Hún sinnti námi sínu vel og tók virkan þátt í félagsstarfi innan skólans; spilaði í skólahljómsveitinni, söng í kór, tók þátt Gettu betur, útgáfu skólablaðsins Eglu og þannig mætti áfram telja. Inga Björk stundar nú nám í listfræði við Háskóla Íslands. Inga kveðst afar þakklát fyrir verðlaunin og segir þau vera mikla viðurkenningu fyrir baráttu hennar.