Eva Lára Vilhjálmsdóttir kennari hefur verið ráðin í hálft starf við framhaldsskólabraut Menntaskóla Borgarfjarðar á vorönn 2013. Framhaldsskólabraut er eins til tveggja ára námsbraut sem ætluð er fyrir nemendur sem ekki uppfylla skilyrði inn á aðrar námsbrautir skólans. Um er að ræða 90 – 120 eininga (nýjar framhaldsskólaeiningar) nám sem lýkur með framhaldsskólaprófi á fyrsta hæfniþrepi. Tilgangurinn er að nemendum sé boðið upp á menntun sem henti þörfum hvers og eins. Megináherslan er á að styrkja almenna þekkingu, leikni og hæfni nemenda með áherslu á hagnýtt nám og starfsþjálfun sem nýst getur nemanda síðar meir á vinnumarkaði. Ennfremur að undirbúa nemendur undir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi og áframhaldandi nám. Til að útskrifast af framhaldsskólabraut þá þurfa nemendur að stunda nám í tvö ár. Nemendur geta eftir eitt ár á framhaldsskólabraut valið um að skipta yfir á aðrar námsbrautir skólans ef þeir ná tilskildum árangri í kjarnagreinum. Megináhersla námsins beinist að því styrkja þekkingu, leikni og hæfni nemenda í kjarnagreinum til að þeir geti stundað nám á brautum til stúdentsprófs eða annarra skilgreinda námsloka.
Námið er byggt upp með kjarnagreinunum íslensku stærðfræði og ensku. Í boði verður að taka aðrar greinar af öðrum námsbrautum skólans. Námið er einstaklingsmiðað og byggt að hluta upp í kringum þemaverkefni í stuttum lotum þar sem áhersla verður á hagnýtt nám. Mikil áhersla er lögð á að vinna með styrkleika og áhugasvið nemenda í tengslum við skipulagningu námsins og starfsþjálfunar.