Í dag var brautskráning Menntaskóla Borgarfjarðar þar sem 24 nemendur voru brautskráðir við hátíðlega athöfn. Nemendur útskrifuðust af Félagsfræðabraut, Náttúrufræðibraut, Íþróttafræðibraut, Opinni braut og af starfsbraut. Hæst á stúdentsprófi að þessu sinni var Lára Karítas Jóhannesdóttir. Lára fékk fjölmargar viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur þar á meðal fyrir besta námsárangur á stúdentsprófi og Menntaverðlaun Háskóla Íslands. Kristján Guðmundsson var næsthæstur á stúdentsprófi við þessa útskrift. Fjölmargir nemendur fengu einnig viðurkenningu en starfsfólk Menntaskóla Borgarfjarðar er einstaklega stolt af sínu fólki. Ávarp nýstúdenta að þessu sinni flutti Snæþór Bjarki Jónsson. Gestaávarpið flutti Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Nýlega var samstarf Menntaskóla Borgarfjarðar og Landbúnaðarháskóla Íslands framlengt með undirritun samnings en skólarnir eiga í samstarfi með eina braut sem gerir nemendum kleift að útskrifast með stúdentspróf af Náttúrufræðibraut – búfræðisviði frá MB og sem búfræðingar frá Lbhí. Með þessu samstarfi tekur það nemandann fjögur ár að ljúka námi frá báðum skólum í stað fimm ára. Við óskum útskriftarnemum innilega til hamingju með daginn og óskum þeim velfarnaðar í því sem þeir taka sér fyrir hendur með þökk fyrir samstarfið á liðnum árum.