23 nemendur brautskráðir frá Menntaskóla Borgarfjarðar

RitstjórnFréttir

OLYMPUS DIGITAL CAMERAÍ dag voru stúdentar brautskráðir frá Menntaskóla Borgarfjarðar í fimmta sinn. Tíu stúdentar luku námi á félagsfræðabraut, ellefu á náttúrufræðibraut og tveir luku viðbótarnámi til stúdentsprófs. Bjarni Traustason kennari stýrði athöfninni, Lilja S. Ólafsdóttir, aðstoðarskólameistari, flutti annál og Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, flutti gestaávarp. Að lokinni brautskráningu hélt Þórkatla Dagný Þórarinsdóttir  ræðu fyrir hönd útskriftarhópsins og athöfninni lauk með ávarpi Kolfinnu Jóhannesdóttur skólameistara. Nýstúdentar sáu um tónlistarflutning; Magnús D. Einarsson lék 1. þátt úr 14. sónötu Beethovens, Jóhanna María Þorvaldsdóttir söng lag úr söngleiknum um Mary Poppins og Magnús Kristjánsson flutti lagið Circle of Life eftir Elton John. Að lokum var öllum viðstöddum boðið til kaffisamsætis.

Í ávarpi Kolfinnu Jóhannesdóttur skólameistara kom fram gagnrýni á nýlegar hugmyndir um sameiningu framhaldsskóla sem birtust í skýrslu verkefnisstjórnar samráðsvettvangs um aukna hagsæld á Íslandi. Kolfinna benti á að horfa þyrfti á hugtök á borð við hagsæld frá sjónarhóli fleiri en einnar fræðigreinar. Hún nefndi að niðurstöður margra rannsókna hafi sýnt að litlir skólar ná betri árangri hvað námsgengi varðar. Kolfinna lagði áherslu á að litlir framhaldsskólar á landsbyggðinni hefðu á margan hátt forskot, skólanefndir hefðu hagsmuna að gæta í þágu eigin samfélags, skólarnir væru þungamiðja samfélagsins, hefðu sterk tengsl við nemendur og fjölskyldur þeirra og allt starf þeirra og þjónusta væri með persónulegri hætti en í stærri skólum.

Dúx MB er að þessu sinni Bjarki Þór Grönfeldt Gunnarsson sem hlaut meðaleinkunnina 9.15. Bjarki Þór útskrifast nú með skólasystkinum sínum en hann lauk reyndar námi við MB í desember síðastliðnum og hefur stundað nám í sálfræði við Háskólann í Reykjavík á vormisseri. Bjarki Þór hlaut fjölda viðurkenninga fyrir góðan árangur; frá Arionbanka fyrir besta árangur á stúdentsprófi, frá Menntaskóla Borgarfjarðar fyrir vandaðasta lokaverkefnið, frá Kaupfélagi Borgfirðinga fyrir góðan árangur í samfélagsgreinum og frá Kvenfélagi Borgarness fyrir góðan árangur í íslensku. Þá fékk Bjarki Þór viðurkenningar frá Getspekifélagi Menntaskóla Borgarfjarðar vegna þátttöku í spurningakeppni framhaldsskólanna Gettu betur og frá skólablaðinu Eglu fyrir ritstörf.

Amelia Christine Scholl hlaut viðurkenningu frá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskóla Íslands fyrir góðan árangur í erlendum tungumálum.

Dagbjört Birgisdóttir hlaut viðurkenningu frá Borgarbyggð fyrir góð störf í þágu félagslífs nemenda og stjórnar nemendafélagsins. Hún fékk einnig viðurkenningu skólablaðsins Eglu fyrir ritstörf.

Davíð Andri Bragason hlaut viðurkenningu Menntaskóla Borgarfjarðar fyrir sjálfstæði, færni og framfarir í námi.

Hildur Hallkelsdóttir hlaut viðurkenningu frá danska sendiráðinu fyrir góðan árangur í dönsku og hún hlaut jafnframt hvatningarverðlaun Zontaklúbbs Borgarfjarðar.

Hulda Geirsdóttir hlaut viðurkenningu frá Háskóla Reykjavíkur fyrir góðan árangur í raungreinum.

Svandís Björk Guðmundsdóttir hlaut hvatningarverðlaun Heilsueflandi skóla sem stýrihópur Heilsueflandi framhaldsskóla hjá embætti landlæknis veitir.

Þórkatla Dagný Þórarinsdóttir hlaut viðurkenningu Gámaþjónustu Vesturlands fyrir góðan árangur í náttúruvísindum.

zp8497586rq