Skóli hófst á þriðjudag eftir gott jólafrí. Vond veður hafa aðeins sett strik í reikninginn þegar kemur að mætingu bæði kennara og nemenda en það hefur þó ekki mikil áhrif á námið því bæði nemendur og kennarar geta haldið sínu striki þökk sé nútímatækni. Það er alltaf ys og þys þessa fyrstu daga á hverri önn og gaman að sjá líf færast í skólann. Félagsstarf nemenda er einnig komið á fullt og má nefna að MB keppir í Gettu betur núna í kvöld og svo er árlegur Áskorendadagur í næstu viku en þar etja kappi lið starfsfólks og nemenda í hinum ýmsu greinum og mörgum óhefðbundnum.
Menntaskóli Borgarfjarðar reynir eftir fremsta megni að bjóða upp á valáfanga fyrir nemendur sína til að glæða námið og hver geti stundað nám sem höfðar hvað mest til þeirra. Á vorönn 2020 eru kenndir þrír valáfangar, en það eru saga og kvikmyndir, forritun og tölvuleikjagerð, og útivist í snjó, auk þess geta nemendur valið sér áfanga af öðrum brautum skólans.