Um þessar mundir standa svokallaðar lýðræðisvikur yfir í félagsfræði 3A06. Í nýrri aðalnámskrá er mikil áhersla lögð á lýðræði og eru þessar vikur liður í því að uppfylla þær áherslur. Alls eru 6 vikur af önninni notaðar í þennan hluta og felst hann fyrst og fremst í því að nemendahópurinn hefur komist að samkomulagi um hvað hann vill læra í stjórnmálafræði. Fyrsta verkefnið var að stofna eigin stjórnmálaflokka. Fjórir flokkar voru stofnaðir, Captain, Hægri krossmenn, Velsæmisflokkurinn og Betri kjör. Flokkarnir settu allir fram sína eigin stefnuskrá í fjölmörgum liðum.
Síðastliðinn mánudag var síðan haldið í vettvangsferð á vit stjórnmálanna í höfuðborginni. Dagurinn hófst með heimsókn í Alþingishúsið þar sem gengið var um höll lýðræðisins á Íslandi. Að því loknu fór hópurinn í utanríkisráðuneytið þar sem starfsemi ráðuneytisins var kynnt. Svo vel vildi til að Framsóknarflokkurinn var með þingflokksfund í ráðuneytinu og komu þingmenn kjördæmisins, utanríkisráðherra þar á meðal, á fund hópsins. Einnig fékk hópurinn tækifæri til að hitta allan þingflokk Framsóknarflokksins og ræða stuttlega við hann.