Í stefnu Menntaskóla Borgarfjarðar er lögð áhersla á mikilvægi þess að MB tengist aðilum í samfélaginu, til dæmis með aðkomu að kennslu eða öðru starfi við skólann. Mikilvægi þessa góða sambands skóla við sitt samfélag er alltaf mikið og ekki síst nú þegar atvinnuhættir og samfélag þróast hratt með aukinni tækni og tækifærum.
Undanfarin misseri hefur verið nokkur vinna í gangi með það að markmiði að leggja grunn að formlegu samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og skóla víða um samfélagið.
Fyrsti formlegi samningur um samstarf var undirritaður nú í lok desember við ráðgjafafyrirtækið KVAN. Um er að ræða samning til þriggja ára um menntunar og þjálfunarverkefnið “Lífsleikni KVAN”. Samstarfið felur í sér að valdefla nemendur, gera þeim kleift að vinna út frá eigin styrkleikum, ekki eingöngu í námi heldur einnig í samskiptum. Kynnast hópnum, kunna að meta fjölbreytileikann og verða betri liðsfélagi og nemandi. Þjálfa viðhorfið í að sjá hversu öflugur viðkomandi er, en á sama tíma geta lyft öðrum upp. Þjálfa heilbrigt sjálfstraust, samkennd og sjálfstæða hugsun sem er nauðsynleg færni í framtíðarverkefnum.
Samstarfið beinist bæði að nemendum og kennurum Menntaskóla Borgarfjarðar. Verkefnið miðar að því að þjálfa nemendur og kennara Menntaskóla Borgarfjarðar með aðferðafræði KVAN. Fyrir liggur að á vorönn 2021 muni KVAN koma að lífsleikni kennslu allra nemenda í staðnámi auk þess að halda námskeið með kennurum skólans. Næstu tvö ár verður svo KVAN með aðkomu í áfanganum Lífsleikni sem er skylduáfangi allra nýnema. Eins er stefnt að námskeiðum á hverju ári fyrir kennara.