Það er okkur í MB mikið gleðiefni að geta tilkynnt að nú í vikunni var staðfest að Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa hlotið styrk frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu til að hefja tilraunaverkefni í almenningssamgöngum í Borgarbyggð. Verkefnið er samstarfsverkefni milli Borgarbyggðar, Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Menntaskóla Borgarfjarðar og Vegagerðarinnar.
Fyrir liggur að Borgarbyggð mun opna skóla- og tómstundabíla sveitarfélagsins fyrir almenning þannig að almenningur geti keypt sér far með bílunum. Þá verða teknar upp morgunferðir alla virka daga yfir vetrartímann frá Varmalandsskóla og Kleppjárnsreykjaskóla í Borgarnes. Loks hefur Vegagerðin samþykkt að fjölga ferðum á leið 81 þannig að ekið verði alla virka daga yfir vetrartímann.
Þetta hefur þau áhrif að nemendur Menntaskóla Borgarfjarðar sem eru búsettir á þessu svæði eiga þess kost að nýta almenningssamgöngur til að sækja skólann. Nemendum býðst að fara með skólabílum frá sínu heimili til Kleppjárnsreykja eða Varmalands og þaðan verður farið kl: 08:20 alla vika virka morgna og komið í Borgarnes fyrir klukkan 09:00 en þá hefst kennsla í MB.
Fyrsta formlega ferðin verður farin, við hátíðlega athöfn kl. 08:20 frá Kleppjárnsreykjum þann 12. október nk. en nánari upplýsingar um miðakaup, leiðarkerfi og annað verður birt á heimasíðu Borgarbyggðar. Við í MB munum einnig upplýsa ykkur nánar þegar frekari upplýsingar liggja fyrir.