Almenningssamgöngur

Bragi Þór SvavarssonFréttir

Líkt og skólaárið 2021 – 2022 mun Borgarbyggð  opna skóla- og tómstundabíla sveitarfélagsins fyrir almenning þannig að almenningur geti keypt sér far með bílunum.  Þá verða teknar upp morgunferðir alla virka daga yfir vetrartímann frá Varmalandsskóla og Kleppjárnsreykjaskóla í Borgarnes.

Nemendum býðst því áfram að fara með skólabílum frá sínu heimili til Kleppjárnsreykja eða Varmalands og þaðan verður farið kl: 08:20 alla vika virka morgna, eða skv. skóladagatali Grunnskóla Borgarfjarðar, og komið í Borgarnes fyrir klukkan 09:00 en þá hefst kennsla í MB.

Eins býðst almenningi að nýta sér þá skólabíla sem fara frá Mýrunum í Borgarnes. Þeir bílar koma í Borgarnes um 8:00 alla virka daga eða skv. skóladagatali Grunnskólans í Borgarnesi.

Við hvetjum nemendur til að nýta sér þessa frábæru þjónustu þegar hún hefst frá og með 23ja ágúst!

Hægt er að fá upplýsingar um leiðir skólabíla hjá Borgarbyggð.

Til áminningar þá er um að ræða samstarfsverkefni milli Borgarbyggðar, Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Menntaskóla Borgarfjarðar og Vegagerðarinnar og er styrkt af Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu sem tilraunaverkefni í almenningssamgöngum í Borgarbyggð.