Skólameistari og tveir kennarar frá Nils Fredriksson menntaskólanum, NFU, í Svedala í Svíþjóð hafa verið í heimsókn í MB undanfarna daga með áframhaldandi samstarf skólanna í huga. Hópur nemenda úr NFU heimsótti MB í apríl á liðnu ári en verkfall framhaldsskólakennara setti þá að vísu nokkurt strik í reikninginn varðandi móttökur af hálfu MB. Nú hefur verið ákveðið að halda samstarfi skólanna áfram og von er á öðrum hópi sænskra nemenda í mars næstkomandi. Einkum verður lögð áhersla á jarðfræði í Íslandsheimsókninni en kennarar beggja skóla vinna nú að hugmyndum um samstarf á sviði fleiri námsgreina.
MB og NFU eiga það meðal annars sameiginlegt að vera fámennir skólar, með um og innan við 200 nemendur í dagskóla. Í báðum skólum er lögð áhersla á nemendamiðaða kennslu og persónulega þjónustu við hvern og einn.