Gestir frá Svíþjóð

RitstjórnFréttir

OLYMPUS DIGITAL CAMERANýverið komu 12 sænskir nemendur og tveir kennarar frá NFU menntaskólanum í Svedala í náms- og kynnisferð til Íslands. NFU á í samstarfi við MB og er þetta í annað sinn sem nemendur hans koma hingað. Það voru einkum nemendur á fyrsta ári náttúrufræðibrautar MB sem tóku þátt í dagskránni með sænsku gestunum en fleiri nutu góðs af. Sænsku nemendurnir fóru í nokkrar kennslustundir á meðan á dvölinni stóð, kynntu sig, tungumál sitt og skóla. Nemendur MB bjuggu til kynningarmyndband um jarðfræði Íslands og náttúruperlur í heimahéraði og sænsku nemendurnir settu upp sýnikennslu í rafdrætti erfðaefnis auk þess sem þeir stóðu fyrir glæparannsókn!

Svíarnir fóru, ásamt nemendum MB, í tvær vettvangsferðir. Í þeirri fyrri voru höfuðstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar í Reykjavík heimsóttar og síðan haldið í Bláa lónið. Í seinni ferðinni var farið um uppsveitir Borgarfjarðar. Þóra Árnadóttir náttúrufræðikennari bar hita og þunga af þeirri ferð. Hún bauð nemendum heim á Brennistöðum og fræddi þá um takmarkað erfðaefni íslenskra búfjárstofna og sérstöðu íslensku geitarinnar, landnámshænunnar og fjárhundarins. Í Reykholti fræddust nemendur um sögu staðarins og skoðuðu sýningu um ævi og sögu Snorra Sturlusonar og gengu að Snorralaug og Skriflu. Í ferðinni var líka staldrað við við Hraunfossa og Barnafoss, Deildartunguhver og Grábrók og rætt um jarðfræði og náttúrufyrirbrigði.

Sænsku gestirnir dvöldu hjá Inger á Borgarnes B&B og nutu þar góðs atlætis. Þeir fóru á sýningar Landnámsseturs um landnámið og Egils sögu og heimsóttu Borg á Mýrum þar sem Anna Guðmundsdóttir íslenskukennari tók á móti þeim og fræddi um sögu staðarins. Þá var sundlaugin í Borgarnesi óspart notuð og farið var í útreiðartúr á Hrafnkelsstöðum á Mýrum. Gert er ráð fyrir að hópur nemenda úr MB fari í námsferð til Svedala á næsta skólaári.