Föstudaginn 26. maí voru 40 nemendur brautskráðir frá Menntaskóla Borgarfjarðar.
Elinóra Ýr Kristjánsdóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema, Elinóra minnti samnemendur sína á að dagurinn væri stór áfangi en samt bara byrjunin. Elinóra sagði „…en það mikilvægasta sem að við höfum lært á menntaskólaárunum er ef til vill eitthvað allt annað. Að læra að vinna fyrir hlutunum, að læra að bera ábyrgð á eigin árangri, að læra að gera mistök og að læra að læra af mistökunum er til að mynda dýrmætur lærdómur og gott veganesti út í lífið.“
Að venju var utanaðkomandi aðila boðið að vera með gestaávarp við brautskráningu en að þessu sinni var það Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor Háskólans á Bifröst sem að hvatti nemendur til að og taka óhrædd móti næstu áskorunum, hleypa heimdraganum og horfa til heimsins alls.
Ávarp tíu ára stúdents var í höndum Bjarka Þór Grönfeldt, hann minnti nemendur á þau forréttindi sem eru fólgin í því að eiga tækifæri til náms. Eins lýsti hann ferð sinni til Sierra Leone og setti í samhengi þær ólíku aðstæður sem fólk um allan heim býr við.
Tónlistaratriði við brautskráningu voru í höndum tveggja nýstúdenta við skólann þeirra Signýjar Maríu Völundardóttur og Andreu Jökulsdóttur, undirleikari með þeim var Halldór Hólm Kristjánsson. Flutningur þeirra var frábær og snerti hug og hjörtu áhorfenda.
Að þessu sinni voru útskrifaðir 3 nemendur af Náttúrufræðibraut, 2 nemendur af Náttúrufræðibraut – búfræðisviði, 7 nemendur af Félagsfræðasviði, 3 nemendur af Íþróttafræðibraut – náttúrufræðisviði, 4 nemendur af Íþróttafræðibraut – félagsfræðasviði, 16 nemendur af Opinni braut, 3 nemendur með viðbótarnám til stúdentsprófs og 2 nemendur af starfsbraut.
Bragi Þór Svavarsson skólameistari ávarpaði útskriftarnema í lok athafnar þar sem hann óskaði þeim gæfu og gengis og hvatti nemendur til áframhaldandi góðra verka og minnti þau á að hafa rödd, og muna að eiga skýra rödd og láta hana heyrast hvar sem er og hvenær sem ermeðal annars til að mótmæla óréttlæti, fagna fjölbreytileika, rækta vinskap og vera kærleiksrík
Verðlaun fyrir bestan námsárangur á stúdentsbraut hlaut Jara Natalía Florence Jonsson með einkunnina 9,79 og fékk fyrir það viðurkenningu frá Arion banka.
Verðlaun og viðurkenningar
Eftirtaldir útskriftarnemar fengu verðlaun og viðurkenningar við brautskráningu
Alexander Jón Finnsson fékk verðlaun fyrir góð störf í þágu félagslífs nemenda gefin af Borgarbyggð.
Atli Hjaltason fékk verðlaun fyrir góðan árangur í náttúruvísindum sem Íslenska Gámafélagið veitir og eins veitti Menntaskóli Borgarfjarðar Atla verðlaunin Sjálfstæði – færni – framfarir sem byggja á einkunnarorðum skólans.
Elinóra Ýr Kristjánsdóttir fékk verðlaun fyrir góð störf í þágu félagslífs nemenda gefin af Borgarbyggð. Elinóra fékk verðlaun fyrir góðan námsárangur í íþróttagreinum sem Sjóvá veitir og verðlaun fyrir góðan námsárangur í Dönsku frá Danska Sendiráðinu. Að lokum fékk Elinóra Menntaverðlaun Háskóla Íslands sem eru veitt einstaklingi sem hefur sýnt góðan árangur á stúdentsprófi, auk þess sem Eilinóra hefur sýnt eftirtektarverðan árangur í íþróttum og setið í Nemendaráði MB.
Fabian Jan Zawiszewski fékk hvatningarverðlaun sem Límtré Vírnet gefur og eru veitt dreng sem hefur sýnt, þrautseigju og framfarir í námi.
Jara Natalía Florence Jonsson fékk verðlaun fyrir góðan námsárangur í íslensku sem eru gefin af Kvenfélagi Borgarnes, verðlaun fyrir góðan námsárangur í raungreinum sem eru gefin af Háskólanum í Reykjavík. Verðlaun fyrir góðan námsárangur stærðfræði sem eru gefin af Stærðfræðifélagi íslands fyrir góðan árangur í stærðfræði. Að lokum veitti Arion banki Jöru verðlaun fyrir besta samanlagða árangur á stúdentsprófi.
Sara Björk Karlsdóttir fékk hvatningarverðlaun Zontaklúbbs Borgarfjarðar, sem eru veitt stúlku sem hefur sýnt, þrautseigju og framfarir í námi
Signý María Völundardóttir fékk viðurkenningu fyrir vandaðasta lokaverkefnið 2023. Einnig veitti Kaupfélag Borgfirðinga Signý verðlaun fyrir góðan árangur í félagsgreinum.