West Side er samstarfsverkefni Menntaskóla Borgarfjarðar, Fjölbrautaskóla Vesturlands og Fjölbrautaskóla Snæfellinga og hefur staðið um nokkurra ára skeið. Á West Side hittast nemendur skólanna, keppa í ýmsum greinum og dagskránni lýkur með balli. West Side var að þessu sinni haldið í Borgarnesi í gær. Keppt var í blaki, fótbolta, körfubolta og fílabolta í íþróttahúsinu, pítsa snædd í mennta-skólanum og loks haldin spurningakeppni í anda Gettu betur. Upp kom sú skemmtilega staða að öll lið enduðu jöfn með 14 stig og eftir miklar vangaveltur formanna nemendafélaganna var ákveðið að hittast eftir áramót og halda keppni áfram. Dagskránni lauk svo með dansleik með Emmsjé Gauta og DJ RedRobertsson þar sem um 300 nemendur skemmtu sér fram á nótt. Allt fór þetta vel fram og nemendum skólanna til sóma.