Föstudaginn 23. maí voru 26 nemendur brautskráðir frá Menntaskóla Borgarfjarðar.
Hugrún Hanna Guðrúnardóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema, Hugrún ræddi þá stemmingu og góðu menningu sem væri í MB. Hugrún sagði „…Þessi ár sem ég hef verið hafa verið fræðandi og krefjandi en fyrst og fremst skemmtileg og stútfull af minningum.“
Að venju var utanaðkomandi aðila boðið að vera með gestaávarp við brautskráningu en að þessu sinni var það Sigrún Ólafsdóttir formaður stjórnar Brákarhlíðar. Sigrún talaði beint til nemenda og hvatti þau til að taka óhrædd móti næstu áskorunum og muna líka að hlusta á góð ráð ömmu og afa og þeirra sem eldri eru. Hvatti þau til að fara í nám og muna að taka alltaf upplýstar ákvarðanir.
Ávarp tíu ára stúdents var í höndum Úrsúlu Hönnu Kimpfler Karlsdóttur. Hún minnti nemendur á að það væri í lagi að ákveða ekki næstu skref strax, reyna ýmislegt og læra af því. Úrsúla minntist veru sinnar í MB með hlýju og þakkaði fyrir að skólinn hafi veitt öllum tækifæri til að vera eins og þeir voru. Starfsfólk skólans hafði tekið öllum nemendum með opnum örmum og fengið athygli og styrk eins og við átti.
Bragi Þór Svavarsson skólameistari ávarpaði útskriftarnema í lok athafnar þar sem hann óskaði þeim gæfu og gengis og hvatti nemendur til áframhaldandi góðra verka og minnti þau á að taka þátt í lýðræðissamfélagi, hafa skoðun og sekki síst að gera eitthvað nýtt alla daga. Bragi ræddi mikilvægi þess að sitja ekki hjá, allir hafa skyldur til að taka þátt og vera með. “Samkennd á að vera okkar helsti styrkur ekki veikleiki, samkennd er það sem gerir okkur mennsk.” sagði Bragi að lokum.
Verðlaun fyrir bestan námsárangur á stúdentsbraut hlaut Árni Hrafn Hafsteinsson með einkunnina 9.32 og fékk fyrir það viðurkenningu frá Arion banka.
Verðlaun og viðurkenningar
Eftirtaldir útskriftarnemar fengu verðlaun og viðurkenningar við brautskráningu
Ágúst Davíð Steinarsson fékk verðlaun fyrir góðan námsárangur í Dönsku, frá Danska Sendiráðinu, Háskólinn í Reykjavík veitti Ágústi verðlaun fyrir góðan árangur í raungreinum, Íslenska gámafélagið fyrir góðan árangur í náttúruvísindum og Menntaverðlaun Hí fékk Ágúst einnig.
Árni Hrafn Hafsteinsson fékk verðlaun frá Kvenfélagi Borgarness fyrir góðan námsárangur í íslensku, Menntaskóli Borgarfjarðar veitti Árna viðurkenningu fyrir lokaverkefni árið 2025. Kaupfélag Borgarfjarðar veitti Árna verðlaun fyrir góðan námsárangur í félagsgreinum. Að lokum fékk Árni verðlaun fyrir besta árangur á stúdentsprófi og það er Arion banki sem veitir þau verðlaun.
Ernir Ívarsson fékk verðlaun frá Menntaskóla Borgarfjarðar fyrir lokaverkefni 2025
Haukur Mikael Arinbjarnarson fékk hvatningarverðlaun sem Límtré Vírnet gefur og eru veitt dreng sem hefur sýnt, þrautseigju og framfarir í námi.
María Ásgeirsdóttir fékk hvatningarverðlaun Zontaklúbbs Borgarfjarðar, sem eru veitt stúlku sem hefur sýnt, þrautseigju og framfarir í námi
Tinna Guðrún Sigurjónsdóttir hlaut sérstök verðlaun frá Menntaskóla Borgarfjarðar er byggja á einkunnarorðum skólans, Sjálfstæði – færni – framfarir.