Upphaf haustannar

Bragi Þór SvavarssonFréttir

Haustið hefur farið vel af stað hér í MB.

Aldrei hafa fleiri nemendur verið skráðir í nám en þetta haustið. 140 nemendur stunda staðnám við skólann en nemendafjöldinn í heild er 219 manns núna í upphafi september.  Sú mikla ásókn sem við finnum fyrir gefur góðan byr í seglin fyrir starfsfólk skólans að gera áfram vel og betur.  Vísa þurfti talsverðum fjölda umsækjenda frá námi þar sem fullt var í áfanga. Það er því þétt setið og skólinn iðar af lífi alla daga.  Nemendur hefja námið af krafti og gaman að sjá hversu tilbúnir þeir eru að koma í skólann.

Nemendalífið fer vel af stað, nemendaráðið hefur þegar staðið fyrir einu klúbbakvöldi, farið í nýnemaferð og í þessari viku sækja nemendur MB nýnemaball FVA á Akranesi.

Kennarar hafa gripið tækifærið og brotið upp hefðbundna kennslu núna í þessu frábæra haustveðri og má nefna að Þóra líffræðikennari hefur farið með nemendur í verkefnavinnu í nágrenni skólans. Sössi íþróttakennari bauð upp á gönguferð úr einkunnum í íþróttum svo eitthvað sé nefnt.

Við leggjum mikið upp úr því að nemendur vilji vera í staðnámi og líði vel, það er því ánægjulegt að sjá hversu duglegir nemendur eru að vera í í skólanum til að mynda í  hádeginu og skráning í mat frábær, enda góður og hollur matur á hagstæðu verði.

Margt er fram undan á næstu dögum, fjöldi nemenda fer í gönguferð og gistir í eina nótt í áfanganum Útivist. Stjórn leikfélagsins er að undirbúa leikveturinn og styttist í að tilkynnt verði um verkefnaval og leikstjóra svo eitthvað sé nefnt.

Mikið hefur verið lagt upp úr styrkingu faglegs starfs í skólanum, frá hausti hafa kennarar rætt mikið um námsmat og fjölbreytni þess. Það liggur fyrir að kennarar MB vilja bregðast við breyttum tímum og áskorunum.  Unnið hefur verið úr niðurstöðum vinnustaðagreiningar og ákveðin umbótaverkefni í farvegi, enda ekkert mikilvægara en ánægt starfsfólk svo starfið og skólinn blómstri.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi eru með í undirbúningi Starfamessu í öllum framhaldsskólum á Vesturlandi og verður hún hér í MB föstudaginn 26. september. Verður örugglega frábær dagur sem á að nýtast nemendum á Vesturlandi vel við náms og starfsval.

 

Einmitt í ljósi þessarar stigvaxandi aðsóknar og styrkingar MB er einstaklega ánægjulegt að sjá hús kynslóðanna rjúka upp úr jörðinni.  Við getum ekki beðið eftir að bjóða fleiri nemendum fast pláss á vel búnum  nemendagörðum. Við höfum því miður þurft að vísa mjög mörgum frá vist á nemendagörðum síðustu ár og ljóst að við munum geta orðið við óskum fleiri

Það er því líf og fjör hér í MB,  skólanum sem varð 18 ára núna á haustdögum, skólinn sem er orðinn fullorðinn en er enn að stækka og þroskast.