40 nemendur brautskráðir

Ritstjórn Fréttir

Föstudaginn 8. júní brautskráðust 40 nemendur frá Menntaskóla Borgarfjarðar. Að þessu sinni brautskráðust 22 nemendur af félagsfræðabraut, 15 nemendur af náttúrufræðibraut, einn nemandi með viðbótarnám til stúdentsprófs og tveir nemendur af starfsbraut. Lilja S. Ólafsdóttir aðstoðarskólameistari flutti annál þar sem hún fór yfir það helsta í skólastarfinu. Kór Menntaskóla Borgarfjarðar flutti nokkur lög undir stjórn Jónínu Ernu Arnardóttur. Þá komu einnig fram með tónlistaratriði Birna Kristín Ásbjörnsdóttir, Inga Björk Bjarnadóttir, Jóhann Snæbjörn Traustason og Sigríður Þorvaldsdóttir. Einnig sungu nemendur og aðrir viðstaddir saman stúdentasönginn. Elínborg Sturludóttir sóknarprestur í Stafholti flutti gestaávarp og Birna Kristín Ásbjörnsdóttir flutti ávarp nýstúdenta. Kolfinna Jóhannesdóttir ávarpaði útskriftarnema, þakkaði fyrir frábært samstarf og óskaði þeim velfarnaðar í framtíðinni. Bjarni Þór Traustason kennari stýrði athöfninni.

Viðurkenningu fyrir bestan námsárangur á stúdentsprófi fékk Alexander Gabríel Guðfinnson. Hann var með meðaleinkunnina 9,56. Fékk hann veglega bókargjöf frá Arion banka. Hann hlaut einnig viðurkenningu Menntaskóla Borgarfjarðar fyrir vandaðasta lokaverkefnið en verkefni hans bar yfirskriftina Miðtaugakerfi mannsins – sjúkdómar miðtaugakerfisins. Þá hlaut hann viðurkenningu fyrir góðan árangur í stærðfræði frá stærðfræðingafélaginu og í náttúruvísindum frá Gámaþjónustu Vesturlands. Alexander Gabríel lauk námi til stúdentsprófs á tveimur árum.

Alda Rós Hafsteinsdóttir hlaut viðurkenningu Borgarbyggðar fyrir góð störf í þágu félagslífs nemenda og við stjórn Nemendafélags Menntaskóla Borgarfjarðar. Hún hlaut einnig viðurkenningu Skólablaðsins Eglu fyrir ritstörf.

Axel Máni Gíslason fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í raungreinum sem Háskóli Reykjavíkur gaf. Hann fékk einnig viðurkenningu fyrir góð störf í þágu félagslífs nemenda og við stjórn Nemendafélagsins sem Borgarbyggð gaf. Þá fékk hann viðurkenningu Getspekifélags MB.

Birna Kristín Ásbjörnsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í erlendum tungumálum sem Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskóli Íslands gaf. Þá fékk hún viðurkenningu Skólablaðsins Eglu fyrir ritstörf.

Birta Rán Björgvinsdóttir fékk viðurkenningu Skólablaðsins Eglu fyrir ritstörf.

Guðríður Hlíf Sigfúsdóttir fékk viðurkenningu frá Borgarbyggð fyrir góð störf í þágu félagslífs nemenda og við stjórn Nemendafélagsins.

Guðrún Sara Ásbjörnsdóttir fékk viðurkenningu Menntaskóla Borgarfjarðar fyrir sjálfstæði, færni og framfarir í námi.  Þá fékk hún viðurkenningu Skólablaðsins Eglu. Einnig fékk hún viðurkenningu frá Borgarbyggð fyrir góð störf í þágu félagslífs nemenda og við stjórn Nemendafélags Menntaskóla Borgarfjarðar.

Inga Björk Bjarnadóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í samfélagsgreinum sem Kaupfélag Borgfirðinga gaf. Þá fékk hún viðurkenningu frá Borgarbyggð fyrir góð störf í þágu félagslífs nemenda og við stjórn Nemendafélagsins. Jafnframt fékk hún viðurkenningu Getspekifélags Menntaskóla Borgarfjarðar og viðurkenningu Skólablaðsins Eglu fyrir ritstörf.

Jóhann Snæbjörn Traustason hlaut viðurkenningu Getspekifélags MB.

Karen Björg Gestsdóttir hlaut viðurkenningu frá Danska sendiráðinu fyrir góðan námsárangur í dönsku.

Karen Þóra Sólonsdóttir hlaut hvatningarverðlaun Zontaklúbbs Borgarfjarðar. Um er að ræða hvatningarverðlaun til áframhaldandi náms og eru verðlaunin ætluð stúlku sem hefur síðastliðinn vetur sýnt miklar persónulegar framfarir í námi og góða ástundun.

 Sigríður Þorvaldsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í íslensku sem Kvenfélag Borgarness gefur.
Þá hlaut hún viðurkenningu fyrir góð störf í þágu félagslífs nemenda og við stjórn Nemendafélagsins.

 Styrmir Már Ólafsson hlaut viðurkenningu Skólablaðsins Eglu fyrir ritstörf.