Leiklistarhópur MB hóf nýverið æfingar á söngleiknum Grease en fyrirhugað er að frumsýna verkið í janúar. Valið hefur verið í flest hlutverk og með hlutverk þeirra Sandy og Danny fara Ingibjörg Kristjánsdóttir og Stefnir Ægir Stefánsson. Fjölmargir nemendur menntaskólans taka þátt í sýningunni auk þriggja nemenda úr tíunda bekk grunnskólans í Borgarnesi. Leikstjóri er Bjarni Snæbjörnsson. Bjarni er nemendum að góðu kunnur enda leikstýrði hann líka Litlu hryllingsbúðinni sem leiklistarhópurinn setti upp síðast. Umsjón með tæknimálum í sýningunni hefur Egill Lind Hansson.
