Annáll 2023

Bragi Þór SvavarssonFréttir

Fyrst af öllu langar mig til að þakka nemendum, foreldrum og forráðamönnum, stjórn og ekki síst samstarfsfólki í MB fyrir frábært samstarf á árinu. Sá mikli samhugur sem einkennir skólasamfélagið er gríðarlega mikils virði og gerir það að verkum að skólinn er reiðubúinn til að takast á við áskoranir og gera úr þeim tækifæri.

Við áramót er öllum hollt að líta í eigin barm, horfa til baka og rýna. Í tilfelli skóla eins og MB er það ekki síst gert til að átta sig enn betur á  stöðu skólans í samfélaginu. Minna á að hans helsta markmið er að opna huga og opna leiðir til enn frekari vaxtar hvort heldur er fyrir samfélag eða einstaklinga.  Að líta til baka er gert til að ákveða næstu skref og næstu skref eru alltaf mikilvægust í allri vegferð.

Þegar við lítum til baka yfir árið 2023 þá stendur ýmislegt upp úr og ætla ég að neðan í stuttu máli að fara yfir ákveðna stóra áfanga í skólastarfinu, til að minna okkur á hvað fram hefur farið með það fyrir augum að halda ótrauð áfram. Það skal tekið fram að vissulega er ekki tæmandi upptalningu að ræða.

Það var ákveðinn hápunktur í skólastarfinu þetta almanaksárið þegar teknar voru saman innritunartölur fyrir haustönn 2023. Úr tíunda bekk innritaðist 51 nemandi úr 12 póstnúmerum Um er að ræða mikla fjölgun frá fyrri árum og aldrei hafa fleiri nemendur innritast úr tíunda bekk frá stofnun skólans. Um er að ræða fjölgun staðnema frá fyrra ári um 20%. Við í MB erum einstaklega ánægð með þennan flotta og fjölbreytta hóp sem hóf nám hjá okkur í haust. Gaman er að geta þess að þessir nemendur eru jafnaldrar skólans. MB á það sameiginlegt með þessum nemendum að vera til í nýjungar og eiga framtíðina fyrir sér. Þegar kennsla hófst í haust 2023 þá hófu nám 190 sem er mikil fjölgun frá fyrri árum.

Fyrir MB er það ómetanlegt að finna fyrir þeim mikla hlýhug sem er til staðar í samfélaginu. MB hefur síðustu ár verið að fara ótroðnar slóðir í nálgun við kennslu og nám og fengið hvatningu samfélags á þeirri vegferð. Fjöldi aðila hafa á margan máta stutt við stofnunina og ekki síst uppbygginu Kviku skapandi rýmis hér í MB. Til dæmis má nefna að Rótarý klúbbur Borgarnes veitti MB veglegan styrk úr Hvatningarsjóði sem hefur  það hlutverk að styðja við uppbyggingarverkefni í héraði. Eins tóku sig saman Samband borgfirskra kvenna og mörg kvenfélög úr héraði og veittu styrk til tækjakaupa í Kviku, vissulega frábær stuðningur í hug og verki.

Breytingar á almennu skólastarfi hafa verið miklar í tengslum við skólaþróunarverkefni það sem skólinn er með í gangi og fer ég yfir það hér síðar. Burtséð frá því þá ætlum við að aðlagast breyttum tímum og kröfum og tvennt má nefna sem sett var af stað fyrst til styttri tíma sem við í MB viljum halda áfram með. Vinnustofur á miðvikudögum var eitthvað sem við settum af stað sem tilraunaverkefni sem reynst hefur vel! en reynslan hefur kennt okkur að er nálgun sem við viljum halda í.  Áframhald er á samstarfsverkefni Borgarbyggðar, Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Menntaskóla Borgarfjarðar og Vegagerðarinnar í almenningssamgöngum þar sem boðið er upp á morgunferðir alla virka daga yfir vetrartímann frá Varmalandsskóla og Kleppjárnsreykjaskóla í Borgarnes.  Það er skemmst frá því að segja að nemendur nýta þessar ferðir alltaf meira og meira og í haust var ein ferðin fullsetin. Þetta er afar góð þjónusta og ljóst að við í MB munum leggja mikla áherslu á að þessi þjónusta verði áfram í boði fyrir nemendur MB sem og aðra íbúa Borgarbyggðar.

Undanfarin ár hefur verið farið fram andlitslyfting á kynningarefni MB. Í samvinnu við auglýsingastofuna Hvíta húsið hefur verið „poppað“ upp á ýmislegt markaðsefni og hefur því verið vel tekið. Útlit heimasíðuskólans var uppfært á árinu og tókst vel til. Markaðssetning skólans er verkefni sem alltaf þarf að vera að vinna að og mikilvægt að vera á tánum þegar kemur að því að vera sýnilegur.

 

Sölvi G. Gylfason kennari við skólann vann á vorönn 2023 viðhorfskönnun meðal útskrifaðra nemenda í Menntaskóla Borgarfjarðar gagnvart menntun og reynslu af skólanum. Um var að ræða símakönnun og var svarhlutfall rúmlega 90% allra útskriftarnema MB á árunum 2015-2018. Heilt yfir voru niðurstöður afar góðar fyrir skólann,  sem dæmi var ein niðurstaðan sú að um það bil 97% fyrrum útskriftarnema skólans á árunum 2015-2018 eru annaðhvort líkleg eða mjög líkleg til að mæla með MB sem framhaldsskóla við aðra.  Virkilega jákvæðar fréttir fyrir skólann sem er umhugað um að kanna reglulega viðhorf fyrrum nemenda til skólans. Eitt verkefna yfirstandandi skólaárs er að rýna niðurstöður og vinna áfram úr þeim vísbendingum sem þar er að finna.

Leiklistarhópur MB setti á  vordögum á svið leikritið SING. Sýningin var sett upp með frábærum styrk Tónlistarskóla Borgarfjarðar og nemendur í tíunda bekk GB og GBF tóku fullan þátt í uppsetningunni. Agnar hjá Leynileikhúsinu stýrði verkinu. Viðtökur fóru fram úr væntingum en vel á sjötta hundrað gesta sóttu verkið. Eftir stóð mikil ánægja þeirra sem þátt tóku þátt og mikill hugur er í leiklistarhóp MB og æfingar hafnar á verkinu Rocky Horror sem sett verður á svið  vorið 2024 en svo skemmtilega vill til að sú sýning var einmitt sett á svið í MB fyrir sléttum tíu árum í vor.

Enn er unnið á grunni viljayfirlýsingar sem stjórnarformenn Nemendagarða MB og Brákarhlíðar undirrituðu árið 2022 um uppbyggingaráform á Borgarbraut 63 sem er hugsuð undir nýtt íbúðarhúsnæði og nemendagarða. Fyrir liggur að aðstæður í þjóðfélaginu eru krefjandi þegar kemur að nýbyggingu og skuldsetningu vegna þeirra.  Á sama tíma er ljóst að mikil eftirspurn er eftir húsnæði fyrir nemendur í MB og haustið 2023 þurfti að neita 12 nemendum um pláss á núverandi nemendagörðum. Við þessu þarf að bregðast til lengri og styttri tíma og  margt verið skoðað í þeim efnum.

Í febrúar og mars buðum við nemendum úr grunnskólum allt frá Blönduósi í norðri til Akraness í suðri í heimsókn.  Mjög vel var látið af þessum heimsóknum, enda hefur allt starfsfólk MB undirbúið þær mjög vel og tók á móti nemendum og kynnti skólann ásamt nemendum MB.  Fyrir liggur að þessar heimsóknir eru mjög mikilvægur liður í kynningarstarfi skólans og við munum áfram bjóða nemendum að koma í skipulagðar heimsóknir.

Starf Nemendafélags MB hefur verið með miklum ágætum og margt verið gert. Til að mynda stóð NMB fyrir árshátíð, áskorendadegi, árgangakeppni, vökunótt, nýnemadegi, jóladegi og fjölmörgum stórum og smáum viðburðum. Auk þess halda skólarnir á vesturlandi FVA, FSN og MB böll og er þátttaka í viðurðum MB með miklum ágætum. Stjórn var kosin að venju á vordögum 2023 og er þau Edda, Jónas, Kolbrún, Ólöf Inga og Ernir Daði í stjórn NMB á yfirstandandi skólaári.

Nemendur skólans öðlast sífellt meiri leikni í að nýta sér stafræna hönnun og miðlun í öllum áföngum og löngu orðið ljóst að KVIKA opið skapandi rými innan skólans hefur sannað mikilvægi sitt sem hluti af skólastarfinu og námsumhverfi nemenda.  Í Kvikunni er að finna mynd- og hljóðver þar sem hægt að er að taka upp, vinna myndönd og hljóð og ganga frá stafrænu efni á faglegan hátt. Einnig hýsir Kvikan opið fjölnota rými sem styður við nýsköpun og þróun frumgerða á hugmyndum með því að bjóða aðgang að verfærum eins og þrívíddarprenturum, laser skerum, vinyl skerum, pressum og saumavélum og rými til listsköpunar.  Með tilkomu samnings Borgarbyggðar um afnot þeirra að Kviku hefur notkunin aukist enn frekar og aðsókn að  opnuhúsi sem er alla þriðjudaga frá 16:00 til 19:00 alltaf að aukast.

 

Skólaþróunarverkefni MB er rauði þráðurinn í starfi MB um þessar mundir.

STEAM nám og kennsla í MB samþættir vísindi, tækni, verkfræði, listir og stærðfræði í gegnum viðfangsefni nemenda. STEAM áherslan í MB leggur því áherslu á að þjálfa nemendur í að nota hönnunarhugsun, greinandi hugsun, gagnrýna hugsun, skapandi hugsun,vísindalega hugsun og ekki síst sjálfstæða hugun og um leið átta sig á þeim aðferðum og verkfærum sem hægt er að nota við úrlausn margþættra verkefna sem geta leitt til nýsköpunar á ýmsum sviðum.

Tveir STEAM áfangar voru kenndir í tilraunaskyni og aðlagaðir eftir rýni með nemendum, STEAM kennurum og kennaranemum frá Listaháskóla Íslands. Tveir kennarar úr LHÍ aðstoðuðu við framkvæmd fókushópa með nemendum á vorönn 2023 og þykir okkur mjög mikilvægt að geta verið í góðu samstarfi við háskólasamfélagið.

Lífsnámið er að festa sig í sessi innan MB og hafa núna verið kenndir fjórir af þeim fimm lífsnámsáföngum sem voru þróaðir í samvinnu við kennara og nemendur MB í upphafi vegferðar. Lífsnámsáfangarnir eiga að efla samvinnuhæfni og sjálfstæð vinnubrögð en fyrst og fremst snúast efnistökin um það sem unga fólkinu okkar finnst mikilvægt að hafa sem veganesti út í lífið, að vita allt um geðheilbrigði, kynvitund, kynlíf, fjármál, sjálfbærni, mannréttindi og jafnrétti.

Margir gestir hafa sótt skólann heim til þess að fræðast um skólaþróunarverkefnið í heild sinni og einstaka þætti. Einnig hefur verkefnastjóri skólaþróunar haldið mörg erindi fyrir aðra skóla, menntastofnanir, ráðuneyti og aðra hópa sem vilja fylgjast með vegferðinni.

Það má segja að skólaþróun eigi alltaf að vera til staðar í framsæknum skólum og þannig sjáum við það í MB. Í lok næstu annar verðum við búin að innleiða alla þætti þróunarinnar sem ákveðið var að leggja áherslu á í upphafi vegferðar 2021; lífsnám, stafræna hönnun og miðlun ásamt STEAM áföngum á öllum stúdentsbrautum.

Á tímamótum sem þessum er mikilvægt að líta um öxl en ekki síður að horfa til framtíðar. Skólaþróun í MB mun halda áfram, nýjungarnar sem verið er að innleiða munu festast í sessi og eflast sem hluti af námsframboði og aðferðum í námi og kennslu innan skólans.

 

Útskrift frá Menntaskóla Borgarfjarðar fór fram þann 26. maí. Falleg athöfn og hópurinn stór en alls brautskráðust 40 nemendur í þetta skiptið. Elinóra Ýr Kristjánsdóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema, Elinóra  minnti samnemendur sína á að dagurinn væri stór áfangi en samt bara byrjunin. Elinóra sagði „…en það mikilvægasta sem að við höfum lært á menntaskólaárunum er ef til vill eitthvað allt annað. Að læra að vinna fyrir hlutunum, að læra að bera ábyrgð á eigin árangri, að læra að gera mistök og að læra að læra af mistökunum er til að mynda dýrmætur lærdómur og gott veganesti út í lífið.“

 

Samstarf við KVAN heldur áfram og hingað komu leiðbeinendur frá KVAN og tóku bæði nemendur og kennara í smá kennslu.

Skráning í mötuneytið MB er mjög góð og slegið hvert metið á fætur öðru í aðsókn. Bæði er því að þakka að mikil ánægja er með frábæran mat og einnig því að nemendur sjá alltaf fleiri og fleiri kosti við það að staldra við í húsnæði skólans og njóta samvista hvert með öðru. Góð þróun á skólabrag.

 

Hér tæpt á því allra helsta á þessu almanaksári. Það er líf og fjör og það verður áfram fjör

Fyrir hönd Menntaskóla Borgarfjarðar þakka ég fyrir frábært og gjöfult ár með ósk um áframhald á samstöðu um að gera góðan framsækinn skóla enn betri og framsæknari!

 

Gleðilegt ár

Bragi Þór Svavarsson, skólameistari