Árshátíð Nemendafélags Menntaskóla Borgarfjarðar (NMB) var haldin hátíðleg miðvikudagskvöldið 19. maí. Veislustjóri var Jón Jósep Snæbjörnsson eða Jónsi í Svörtum fötum eins og hann er oft kallaður og fórst honum það verkefni vel úr hendi. Veitingar komu frá Galito á Akranesi eins og undanfarin ár. Foreldrar tóku virkan þátt og aðstoðuðu við frágang og framreiðslu eins og hefð er fyrir.
Skemmtiatriði voru af ýmsum toga, nemendur sýndu myndband þar sem gert var góðlátlegt grín að nemendum og starfsfólki, starfsfólk skólans var með söngatriði og Sveppi kom og messaði eftirminnilega yfir mannskapnum. Nemendur og starfsfólk skemmtu sér því konunglega saman yfir borðhaldi og skemmtiatriðum Stjórn NMB stóð sig vel í undirbúningi fyrir árshátíðina.
Nemendur áttu svo sannarlega inni fyrir því að gleðjast saman í loka þessa skólaárs sem hefur verið á margan máta óvenjulegt eins og allir vita.