Áskorendadagur 2013

Ritstjórn Fréttir

IMG_0426Svokallaður áskorendadagur hefur verið árviss viðburður í félagslífi MB frá árinu 2007. Þá etja nemendur og starfsfólk kappi í hinum ýmsu greinum. Keppt er í sex greinum. Hvor hópur stingur upp á fimm keppnisgreinum og tekur svo tvær greinar í burtu af vali andstæðinganna. Að þessu sinni var keppt í splong dong, boccia, keilubolta og boðhlaupi í íþóttahúsinu og síðan var haldin spurningakeppni í anda Gettu betur og söngkeppni (Sing star) í skólanum. Skemmst er frá því að segja að starfsfólk sigraði að þessu sinni með 4.5 vinningum á móti 1.5 vinningi nemenda. Þetta var sætur sigur því satt að segja hefur starfsfólk aðeins einu sinni farið með sigur af hólmi á áskorendadegi og það var árið 2008.

Keppt er um glæsilegan farandbikar og verður hann afhentur miðvikudaginn 18. desember. Þann dag  mæta nemendur og starfsmenn prúðbúnir í skólann og snæða saman veislumáltíð í mötuneytinu.