Áskorendadagur kennara og nemenda 2015

Ritstjórn Fréttir

Í dag var árlegur áskorendadagur kennara og nemenda í Menntaskóla Borgarfjarðar. Kennarar og nemendur kepptu í mismunandi greinum með það að markmiði að hampa farandsbikarnum. Í fyrra unnu kennarar en að þessu sinni höfðu nemendur sigur úr býtum í æsispennandi bráðabana. Fyrir hádegi fór keppnin fram í íþróttahúsinu í Borgarnesi en keppt var í Splongdong, fótbolta, reipitogi og stígvélakasti. Staðan var 2 – 2 um hádegi. Eftir hádegi komu Sigursteinn Sigurðsson og Guðrún Björk Friðriksdóttir í heimsókn og kynntu bréfamaraþon Amnesty fyrir nemendum og starfsmönnum MB. Þegar starfsfólk og nemendur voru búnir að skrifa á fjölmörg kort til stuðnings fólki sem hefur orðið fyrir miklu óréttlæti í lífinu og því að það sé brotið á mannréttindum þeirra hélt keppnin áfram. Frosinn bolur var fyrsta keppnisgrein en þá þurftu keppendur að ná í sundur frosnum bol og klæða sig í hann. Þar næst var blöðrukeppni, þá spurningakeppni og að lokum kappátt þar sem keppendur áttu að borða hálfan sláturkepp og drekka glas af mysu. Staðan var þá 4 – 4 og þurfti að taka bráðabana sem nemendur sigruðu og fengu bikarinn góða að launum. Dagurinn tókst með eindæmum vel og starfsfólk og nemendur MB nutu dagsins saman. Til hamingju nemendur! Fleiri myndir eru á facebook síðu Menntaskóla Borgarfjarðar.