Baulið

Ritstjórn Fréttir

IMG_0328Mikið hefur verið að gerast í félagslífi nemenda í Menntaskóla Borgarfjarðar að undanförnu. Fyrir skemmstu fór hópur nemenda í skíðaferð til Akureyrar. Ferðin gekk mjög vel og vakti mikla lukku meðal þeirra sem í hana fóru auk þess sem nemendur voru sjálfum sér og skólanum sínum til fyrirmyndar í ferðinni.

Í gærkvöldi var Baulið haldið en það er forkeppni MB fyrir söngkeppni framhaldsskólanna. Tvær stúlkur kepptu um sætið og sungu fyrir 3ja manna dómnefnd og gesti í sal. Það voru þær Ellen Geirsdóttir sem tók lagið “House of the rising sun” og Selma Rakel Gestsdóttir sem tók lagið “Yours”. Keppnin var jöfn en dómnefndin komst loks að niðurstöðu um að Selma Rakel skyldi fara sem fulltrúi MB í aðalkeppnina. Í dómnefnd sátu þau Jóhannes Magnússon, Jónína Erna Arnardóttir og Sigurþór Kristjánsson. Við þökkum dómnefndinni kærlega fyrir sín störf í þágu félagslífs MB.

Meðan dómnefndin réði ráðum sínum buðu aðilar úr leikhópnum Sv1 uppá óvænt skemmtiatriði þar sem þau tóku nokkur lög úr leikssýningunni Benedikt búálfur og gerðu það virkilega vel. Það eru greinilega margir MB-ingar sem geta vel sungið.

Þess má geta að í kvöld er síðasta sýning leikfélagsins en uppselt hefur verið á allar sýningar frá frumsýningu. Mikil vinna er að baki sýningu sem þessari og krakkarnir hafa unnið gríðarlega gott starf. Leikmyndin er glæsileg en hana gerðu þau uppá eigin spýtur. Sérstakar þakkir fyrir aðstoð við leiksýningarnar, fyrir utan leiksstjórann fá þeir Egill Hansson og Samúel Halldórsson sem hafa staðið þétt við bakið á leikhópnum við gerð leikmyndar, hljóð, ljós og fleira og gert það að mestu í sjálfboðavinnu.

Árshátíð Menntaskóla Borgarfjarðar mun svo fara fram fimmtudaginn 3. mars og undirbúningur fyrir það kominn á fullt skrið.

Það er því nóg að gera þessa dagana í félagslífi MB.

Fleiri myndir frá “Baulinu” á facebook síðu Menntaskóla Borgarfjarðar.