Bjarki Pétursson kylfingur úr Golfklúbbi Borgarness og nemadi við MB hefur verið útnefndur íþróttamaður Borgarfjarðar og íþróttamaður Borgarbyggðar árið 2012. Fyrri útnefningin var kynnt við athöfn á Íþróttahátíð UMSB sem fram fór í íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi laugardaginn 2. febrúar síðastliðinn. Stjórn sambandsins og stjórnir aðildarfélaga þess velja íþróttamann ársins. Þetta er í þriðja skipti sem Bjarki er kjörinn íþróttamaður Borgarfjarðar. Það var síðan hinn 10. febrúar sem í ljós kom að Bjarki hafði einnig verið valinn íþróttamaður Borgarbyggðar. Að valinu stendur tómstundanefnd Borgarbyggðar á grundvelli tillagna íþróttafélaga í sveitarfélaginu.
Bjarki náði frábærum árangri á síðasta ári. Hann keppti fyrir Íslands hönd á mótum erlendis og náði 3. sæti á Evrópumóti unglinga undir 18 ára sem haldið var í Sofíu í Búlgaríu. Einnig keppti hann með karlalandsliði Íslands á finnska áhugamannamótinu í Helsinki og hafnaði þar í 25. sæti af tæplega hundrað þátttakendum. Hér heima hafnaði Bjarki í öðru sæti á Íslandsmóti unglinga í höggleik í flokki 17-18 ára og sigraði með yfirburðum á meistaramóti Golfklúbbs Borgarness.