Brautskráning 2024

Bragi Þór SvavarssonFréttir

Föstudaginn 24. maí voru 34 nemendur brautskráðir frá Menntaskóla Borgarfjarðar.

Kolbrún Líf Lárudóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema, Kolbrún hvatti samnemendur sína til að fagna deginum og sagði meðal annars „Þessi þrjú ár sem að ég að ég hef verið í MB hafa verið krefjandi, fjölbreytt, skemmtilegt en fyrst og fremst stútfull af æðislegum minningum og upplifunum. Ég held að ég tali fyrir hönd allra nemenda þegar ég segi að MB sé eins og annað heimili okkar, nema kannski með aðeins fleiri sófum til þess að leggja sig í.“

Að venju var utanaðkomandi aðila boðið að vera með gestaávarp við brautskráningu en að þessu sinni var það Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags og vinnumálaráðherra,  sem að talaði um mikilvægi skóla og hversu stórt hlut verk skóli hefur til að auka þroska, víkka sjóndeildarhring og finna sig sjálfan.

Ávarp tíu ára stúdents var í höndum Þorkels Más Einarssonar en hann , hvatti nemendur til að vera óhrædd við að fylgja draumum sínum, láta reyna á sig þó það kosti kollhnís, þannig verði þau besta útgáfan af sjálfu sér.

Tónlistaratriði við brautskráningu voru í höndum tveggja nýstúdenta við skólann þeirra Töru Helgadóttur  og Eddu Maríu Jónsdóttur, undirleikari Eddu var faðir hennar Jón Þór Sigmundsson.  Flutningur þeirra var frábær og snerti hug og hjörtu áhorfenda.

Að þessu sinni voru brautskráðir, 4 nemendur af Náttúrufræðibraut, 8 nemendur af Félagsfræðabraut, 2 nemendur af Íþróttafræðibraut – náttúrufræðisviði, 1 nemandi af Íþróttafræðibraut – félagsfræðasviði, 14 nemendur af Opinni braut og 5 nemendur með viðbótarnám til stúdentsprófs.

Bragi Þór Svavarsson skólameistari ávarpaði útskriftarnema í lok athafnar þar sem hann óskaði þeim gæfu og gengis og minnti á að öll erum við mismunandi og á nauðsyn þess að bera virðingu fyrir hvert öðru. „Það sem ekki er mannlegt er að  sýna aldrei nema eitt lag, flysja aldrei laukinn sinn, sýna bara eins og  allt leiki í lyndi, bíllinn aldrei bilaður, alltaf nóg til af aurum og lífið brosi við manni. Þannig er það nefnilega víst sjaldnast og ég vona að skólinn hér hafi þroskað ykkur til að vita að þið megið ekki trúa á  það fyrsta sem þið sjáið, trúið ekki á það sem glansmyndin segir við ykkur.

Gefið öllum séns á að vera meira, kynnist öllum aðeins meira og leyfið öðrum að kynnast ykkur meira, þannig verðið þið vinir vina ykkar einlæg og sönn.“

Verðlaun fyrir bestan námsárangur á stúdentsbraut hlaut Unnur Björg Ómarsdóttir með einkunnina 8,94 og fékk fyrir það viðurkenningu frá Arion banka.

Verðlaun og viðurkenningar

Eftirtaldir útskriftarnemar fengu verðlaun og viðurkenningar við brautskráningu

Díana Dóra B. Elínardóttir fékk  viðurkenningu fyrir lokaverkefni ársins 2024

Edda María Jónsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góð störf í þágu félagslífs nemenda gefin af  Borgarbyggð.

Elfa Dögg Magnúsdóttir  fékk viðurkenningu fyrir  góðan námsárangur í Dönsku frá Danska Sendiráðinu. Eins veitti Menntaskóli Borgarfjarðar Elfu verðlaunin Sjálfstæði – færni – framfarir sem byggja á einkunnarorðum skólans.

Halldór Grétar Sigurbjörnsson fékk hvatningarverðlaun sem Límtré Vírnet gefur og eru veitt dreng sem hefur sýnt, þrautseigju og framfarir í námi.

Isabella Sigrún fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í íþróttagreinum sem Sjóvá veitir.

Kolbrún Líf Lárudóttir fékk viðurkenningu fyrir góð störf í þágu félagslífs nemenda gefin af  Borgarbyggð.

Lisbeth Inga Kristófersdóttir fékk verðlaun fyrir góðan námsárangur í íslensku  sem eru gefin af Kvenfélagi Borgarnes.

María Caroline Guðmundsdóttir fékk  hvatningarverðlaun Zontaklúbbs Borgarfjarðar, sem eru veitt stúlku sem hefur sýnt, þrautseigju og framfarir í námi

Ólöf Inga Sigurjónsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góð störf í þágu félagslífs nemenda gefin af  Borgarbyggð.

Tara Björk Helgadóttir fékk verðlaun fyrir góðan árangur í náttúruvísindum sem Íslenska Gámafélagið gaf.

Unnur Björg Ómarsdóttir fékk viðurkenningu fyrir lokaverkefni 2024. Einnig veitti Kaupfélag Borgfirðinga Unni  verðlaun fyrir góðan árangur í félagsgreinum. Unnur hlaut Menntaverðlaun Háskóla Íslands sem eru veitt einstaklingi sem hefur sýnt góðan árangur á stúdentsprófi. Að lokum veitti Arion banki Unni  verðlaun fyrir besta samanlagða árangur á stúdentsprófi.