Brautskráning

Ritstjórn Fréttir

photo(5) 24 nemendur brautskráðust frá Menntaskóla Borgarfjarðar þann 5. júní. 22 nemendur luku stúdentsprófi og 2 nemendur útskrifuðust af starfsbraut. Dúx skólans er Úrsúla Hanna Karlsdóttir. Hún hlaut viðurkenningu Arionbanka fyrir besta árangur á stúdentsprófi  og jafnframt hlaut hún viðurkenningar frá danska sendiráðinu fyrir dönsku, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur fyrir góðan árangur í erlendum tungumálum, Háskólanum í Reykjavík fyrir góðan árangur í raungreinum og Stærðfræðingafélaginu fyrir góðan árangur í stærðfræði. Karlotta María Scholl er semidúx skólans. Hún hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í náttúruvísindum frá Gámaþjónustu Vesturlands og frá Kvenfélagi Borgarness fyrir góðan árangur í íslensku. Alexandra Rut Jónsdóttir hlaut viðurkenningu Menntaskóla Borgarfjarðar fyrir sjálfstæði, færni og framfarir í námi. Viðurkenningu Borgarbyggðar fyrir góð störf í þágu félagslífs nemenda og við stjórn NMB hlutu Alexandra Rut, Helena Rós Helgadóttir og Ingibjörg Jóhanna Kristjánsdóttir. Kristrún Kúld Heimisdóttir hlaut viðurkenningu Sjóvár fyrir góðan árangur í íþróttagreinum. Hvatningarverðlaun Zontaklúbbs Borgarfjarðar hlaut Angela Danuta Gonder og Hvatningarverðlaun Límtrés Vírnets hlaut Kristófer Már Gíslason. Gunnar Árni Hreiðarsson hlaut viðurkenningu Menntaskóla Borgarfjarðar fyrir vandaðasta lokaverkefnið. Berglind Ýr Yngvarsdóttir lauk stúdentsprófi frá náttúrufræðibraut – búfræðisviði og er hún fyrsti nemandinn sem lýkur þessu námi sem er samstarfsverkefni MB og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Lilja S. Ólafsdóttir, aðstoðarskólameistari, flutti annál skólans, Guðrún Jónsdóttir, forstöðumaður Safnahússins, gestaávarp og af hálfu nýstúdenta talaði Sigrún Rós Helgadóttir.

Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir, skólameistari, ræddi m.a. í ávarpi sínu mikilvægi þess að geta stundað nám í heimabyggð, jákvæð áhrif skólans í nærsamfélaginu og mikilvægan stuðning fyrirtækja og stofnana við skólastarfið. Hún minnti á þau fjölbreyttu tækifæri sem ungu fólki standa til boða hvað nám varðar og hvatti útskriftarnema til þess að nýta þau vel.