Endurmenntunarferð til Glasgow

Ritstjórn Fréttir

OLYMPUS DIGITAL CAMERAStarfsmenn Menntaskóla Borgarfjarðar fóru í endurmenntunarferð til Glasgow fyrir skemmstu. Þrír skólar í borginni voru heimsóttir, Glasgow University/School of Education, High School of Glasgow og Glasgow Kelvin College.

Í háskólanum var hlýtt á fyrirlestra um skoskt skólakerfi og framtíðarsýn, námsmat, námskrárfræði, kennsluaðferðir o.fl.

Rúmlega 1000 nemendur á aldrinum 3 – 18 ára leggja stund á nám í High School of Glasgow sem er einkaskóli. Skólinn á langa sögu en rætur hans má rekja aftur til 12. aldar. Auk hefðbundins náms er mikil áhersla lögð á tónlist, leiklist, íþróttir og ýmsa skapandi iðju í skólanum. Að lokinni kynningu Colin Mair, skólastjóra á starfi skólans og markmiðum fengum við að sitja í kennslustundum og fylgjast með kennslu og síðan gafst tækifæri til að spjalla við kennara og kynnast starfi þeirra nánar.

Glasgow Kelvin Kollege varð til við samruna þriggja skóla árið 2013. Nú stunda um 16000 nemendur nám í skólanum. Námsframboð miðar að því að mæta þörfum nemenda á öllum aldri og með mismunandi bakgrunn. Námsleiðir eru gífurlega fjölbreyttar og nemendum býðst að ljúka formlegum prófgráðum en einnig geta þeir orðið sér úti um ýmiss konar starfstengd réttindi í skólanum. Um 20% nemenda eru svokallaðir „mature learners“; þ.e. fólk sem af einhverjum ástæðum hefur flosnað upp úr skóla og gefst nú tækifæri til að hefja nám að nýju.

Móttökur í skólunum einkenndust af mikilli fagmennsku og gestrisni og komum við reynslunni ríkari heim með ýmsar góðar hugmyndir í farteskinu. Myndin er tekin af hópnum og Colin Mair skólastjóra í hátíðasal High School of Glasgow.