Landnámssetrið

Ferð nemenda í ferðamálafræði

RitstjórnFréttir

Eitt af því sem við höfum gert í ferðamálafræði var að fara í litlum hópum á veitingastaði á svæðinu og kanna aðstæður þar.  Við fórum á Landnámsetrið.  Þar skoðuðum við okkur um og tókum viðtal við starfsmann.  Þarna er margt í boði, það ber helst að nefna; Egils- og landnámssýningu, leiksýningar á veturna, veitingar og reglulegar sögustundir.
Starfsmaðurinn sem við ræddum við sagði að fólk sækti í allt sem væri þarna í boði, en sýningarnar væru vinsælastar.  Það er mest að gera á sumrin, en það er líka stundum mikið að gera á veturna þegar leiksýningarnar eru.  Á veturna dregst aðsóknin á veitingastaðinn þó nokkuð saman, í takt við minnkandi ferðamannastraum, þar sem ferðamenn eru stærstur hluti viðskiptavinanna.  En hún sagði Borgnesinga ekki nógu duglega að koma á veitingastaðinn.  Þarna er góð fundaraðstaða og nemendaaðstaða.  Fundaraðstaðan er mikið notuð en nemendur hafa lítið sem ekkert nýtt sér nemendaaðstöðuna góðu.  Við auglýsum hana því hér með.
Þjónusta var misjöfn eftir starfsfólki.  Annar af þeim tveimur starfsmönnum sem við ræddum við, var mjög kurteis, lipur og almennilegur, á meðan hinn var beinlínis ókurteis.  Þannig að þjónustunni er aðeins ábótavant.
Við skoðuðum okkur um húsið og könnuðum aðstæður eftir fremsta megni.  Í heildina litið fannst okkur húsið mjög snyrtilegt og aðlaðandi.  Salirnir eru fínir og hönnunin og stíllinn stílhreinn og skemmtilegur, það er t.d. skemmtilegt hvernig kletturinn bak við húsið kemur inn í innréttinguna.  Huggulegur bragur er á veitingastaðnum, hann er bjartur og róleg og þægileg tónlist var spiluð þegar við komum þangað.  Veitingasalurinn á efri hæðinni er líka mjög skemmtilegur.
En aðgengi þarna er ekki auðvelt fólki sem á erfitt með að komast um og fólki í hjólastól er eiginlega ómögulegt að fara nokkuð þarna um, þar sem það er engin lyfta þarna.  En það þarf að fara í stiga til að komast á veitingastaðinn, fundarsalinn, sýningarloftið og landnáms- og Egilsýninguna niðri.
Allt efni er mjög aðgengilegt útlendingum, þá er sama hvort um er að ræða föstu sýningarnar, matseðla eða vörur í versluninni þar sem allt efni því tengt er á ensku og leiðsögn um sýningarnar er á fleiri tungumálum.
Að lokum viljum við segja að okkur fannst verðið á flestu þarna vera of hátt.

Sesselja, Edda og Vigdís.