Fjölbreytt lokaverkefni í MB

RitstjórnFréttir

Frá upphafi skólastarfs við Menntaskóla Borgarfjarðar hafa nemendur unnið sérstök lokaverkefni á síðustu námsönn sinni við skólann. Um er að ræða einstaklingsverkefni þar sem ríkar kröfur eru gerðar um sjálfstæð og vönduð vinnubrögð. Lokaverkefnin veita nemendum tækifæri til að dýpka skilning sinn á afmörkuðu sviði og yfirleitt velja nemendur sér viðfangsefni sem tengjast sérstökum áhugasviðum hvers og eins. Vinnan við verkefnin þjálfar nemendur í að beita viðurkenndum aðferðum við meðferð heimilda, rannsókn eða lausn viðfangsefna og býr þá enn frekar undir háskólanám.

Stúdentsefni í Menntaskóla Borgarfjarðar hafa nú skilað inn rannsóknaráætlunum sínum og þar með hafið vinnuna við lokaverkefnin sín. Viðfangsefni þeirra eru fjölbreytt að vanda. Meðal efnis sem nemendur hyggjast fjalla um í lokaverkefnum að þessu sinni má nefna þjálfun keppnishesta, fyrirburafæðingar, rithöfundinn Tolkien, bandarísku geimferðastofnunina, nýtingu selastofnsins við Ísland, innflytjendur á Íslandi, íþróttaþjálfun o.fl.

Stefnt er að því að nemendur kynni viðfangsefni sín á opinni málstofu í mars næstkomandi.


zp8497586rq