Forvarnadagurinn 2012

Ritstjórn Fréttir

Forvarnadagurinn er nú haldinn í áttunda sinn en til þessa hefur athygli dagsins beinst að nemendum í efstu bekkjum grunnskóla. Vímuefnaneysla hefur minnkað jafnt og þétt undanfarin ár meðal grunnskólanema en sem þekkt er eykst neysla vímugjafa, sérstaklega áfengis, nokkuð hratt eftir að nemendur komast á framhaldsskólaaldur.
Því var ákveðið að bjóða framhaldsskólum að taka þátt í Forvarnadeginum 2012, með virkri þátttöku yngri nemenda skólanna. Vonast er til að tillögur þeirra og hugmyndir muni koma að gagni í umræðu og aðgerðum í forvarnamálum í nærumhverfi framhaldsskólanema. Efling sjálfstrausts til ákvarðanatöku, ábyrgð einstaklingsins á sjálfum sér, hvaða aðferðir geta virkað og hugmyndir nemenda verða til grundvallar umræðunni.
Rannsóknir og greining (RG) mun í kjölfarið vinna skýrslu með samantekt á tillögum nemenda framhaldsskólanna. Skýrslan verður send framhaldsskólunuum eftir úrvinnslu undir heitinu: ,,Þetta vilja þau – hugmyndir og tillögur framhaldsskólanema“

Umsjón Forvarnadagsins 2012 í MB höfðu þeir Ívar Örn Reynisson, kennari og Bjarni Traustason, kennari og forvarnafulltrúi. Yngri nemendur skólans söfnuðust saman á sal og leystu verkefni og tóku þátt í umræðum. Dagskráin var með þeim hætti að fyrst var farið yfir kynningarefni frá RG um þróun vímuefnaneyslu ungmenna á Íslandi undanfarin 15 ár, hvernig staðan hefur breyst meðal elstu nemenda grunnskóla og hvað gerist almennt á fyrsta ári í framhaldsskóla. Að lokinni kynningu var nemendum skipað  í umræðuhópa.
Umhugsunarefni hópanna voru m.a.:

a.     Lítil ölvunardrykkja í efstu bekkjum grunnskóla. Hvað gæti orðið til þess að nemendur seinkuðu áfengisdrykkju í framhaldsskóla?
b.    Ákvörðunarréttur nemenda og ábyrgð einstaklingsins á sjálfum sér.
c.     Hvað nemendum finnst vanta í forvarnastarfi.
d.     Hvað er til úrlausnar að mati nemenda?
e.     Hvort það sé nánast óumflýjanlegt að hefja neyslu áfengis?
f.      Hvað gæti mögulega orðið til að seinka því að unglingar hefji neyslu áfengis?
g.     Hugmyndir nemenda.

Nemendur  skráðu niðurstöður sínar á Facebooksvæði tileinkað Forvarnadeginum. Auk þess geta allir nemendur svarað spurningalista sem opinn er á sama vefsvæði en svörin verða til grundvallar í skýrslunni: ,,Þetta vilja þau – hugmyndir og tillögur framhaldsskólanema í forvörnum“

zp8497586rq