Fræðst um sögu Snorra í Reykholti

RitstjórnFréttir

Nýverið fóru nemendur í íslensku 2B06 í heimsókn í Reykholt til þess að skoða sýningu um ævi og störf Snorra Sturlusonar sem þar hefur verið sett upp. Nemendurnir hafa nýlokið við að lesa Gylfaginningu og frásagnarkafla Snorra Eddu og undirbúa sig nú fyrir að skrifa ritgerð um efnið. Það var því vel við hæfi að fara í Reykholt og njóta leiðsagnar heimamanna. Sigrún Þormar, verkefnastjóri í Snorrastofu, tók á móti hópnum og flutti bráðskemmtilegt og fróðlegt erindi um Snorra Sturluson og kynntust nemendur þar ýmsum þáttum í lífi hans sem komu á óvart og vöktu spurningar. Nemendur gengu um sýninguna og skoðuðu að því loknu Reykholtskirkju. Þar varð sóknarpresturinn, sr. Geir Waage, á vegi hópsins og greindi hann frá kirkjum í Reykholti í gegnum tíðina sem og ýmsum sérkennilegum siðum sem tengdust kirkjulífi fyrr á öldum.

Í umræðum nemenda eftir ferðina kom fram að þeir undrast þau umsvif sem höfðingjar fyrr á öldum höfðu í raun og hversu víðförlir forfeður þeirra voru margir hverjir. Einnig vöktu myndir af húsakosti í Reykholti á tímum Snorra sérstaka athygli þeirra.

Það eru forréttindi að eiga kost á að sækja sýningu sem þessa í næsta nágrenni við skólann og telja má víst að ferð í Reykholt verði héðan í frá fastur liður í íslenskunáminu í MB.

zp8497586rq