Fyrirlestur um geðræn málefni

RitstjórnFréttir

file_000

Hópur háskólanema hefur unnið að því að búa til fræðsluefni um geðræn málefni fyrir nemendur í menntaskólum. Í kringum þetta starf var félagið Hugrún stofnað en að því standa nemendur í læknisfræði, sálfræði og hjúkrunarfræði við HÍ. Markmið fræðslunnar eru m.a. að eyða fordómum tengdum geðsjúkdómum og að kenna nemendum hvað stuðli að góðri andlegri heilsu.

Í morgun komu þau Teitur sem er á fyrsta ári í læknisfræði og Dóra Sóldís sem er á fyrsta ári í sálfræði og töluðu við nemendur í Menntaskóla Borgarfjarðar. Þetta var afar áhugaverður og góður fyrirlestur hjá þeim sem fór fram á jafningjagrundvelli þar sem nemendur fengu tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og spyrja spurning. Rætt var um kvíða, þunglyndi, fíkn og margt fleira. Við þökkum félaginu Hugrúnu og þeim Teiti og Dóru Sóldísi kærlega fyrir áhugavert erindi.

Geðheilsa nemenda er eitthvað sem við í Menntaskóla Borgarfjarðar tökum mjög alvarlega. Nýlega var skrifað undir samkomulag við Stéttarfélag Vesturlands í því samkomulagi felst að nemendur MB geta fengið allt að fjóra fría sálfræðitíma hjá sálfræðingi að sínu vali, gegn tilvísun frá náms- og starfsráðgjafa. Menntaskólinn greiðir fyrsta tímann og sjúkrasjóður Stéttarfélags Vesturlands næstu þrjá tíma að hámarki. Nemendur eru þegar farnir að nýta sér þessa góðu þjónustu og erum við Stéttarfélagi Vesturlands þakklát fyrir þetta góða samstarf.